Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði hérna um heildarsamhengi og það væri svo mikilvægt að ná þessum hluta, þ.e. atvinnuleyfinu, í gegn í þessu heildarsamhengi. Ég skil ekki alveg nauðsynina á því. Það er ekki neitt verið að breyta fyrirkomulagi dvalarleyfis vegna mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla í heildarsamhenginu. Það er alltaf bara ákveðin tegund af dvalarleyfum, vernd sem er veitt, og frumvörpin hingað til hafa alla vega ekki verið að fikta neitt í því. Þetta eru bara tvær ákveðnar dvalarleyfisleiðir sem vantar atvinnuleyfi. Það er í rauninni mjög afmarkað verkefni. Eins og er þá hefur strandað á að laga þessar tvær dvalarleyfisleiðir af því að þær hafa verið hengdar á ótengd mál innan útlendingalaganna. Það hefur í rauninni verið ákveðin gíslataka þarna á milli, það er búið að búa til þessa tengingu á milli sem á ekki að þurfa að vera. Það eru ekki heildarsamhengistengsl þar á milli. Jú, þetta er innan útlendingalaga. En dvalarleyfi vegna mannúðar og sérstakra tengsla eru bara mjög sértækar leiðir innan þessa heildarkerfis sem er mjög auðvelt að taka út fyrir sviga og segja: Þetta er lagað. Allar hinar breytingarnar sem við gerum á frumvörpunum eins og þau hafa verið breyta engu um það. Þess vegna átti breytingartillaga við frumvarp hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hérna á síðasta þingi einmitt að færa þetta á rétt málefnasvið ráðherra. Henni var hafnað, sem var eiginlega mjög skrýtið því að þetta var tillaga sem var í öðru frumvarpi og það var aldrei rökstutt hvers vegna þetta atvinnuleyfi ætti ekki heima á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðherra. Er þá hægt að klára þetta afmarkaða verkefni óháð þessu svokallaða heildarsamhengi?