Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:21]
Horfa

Flm. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu og veita þessu mikilvæga máli mínu athygli. Ég þakka henni enn fremur fyrir efnislegan stuðning við það.

Hv. þingmaður nefnir að hún telji að gera þurfi frekari breytingar á lögum um útlendinga og það stendur til að gera það í frumvarpi sem dómsmálaráðherra hyggst leggja fram einhvern tímann á næstu dögum. En þetta sem ég er að leggja til eru ekki breytingar á lögum um útlendinga heldur á lögum um atvinnuréttindi útlendinga sem heyra ekki einu sinni undir dómsmálaráðherra. Ég er með nokkrar spurningar til hv. þingmanns og ég vona að ég nái að troða þeim inn í þennan stutta tíma sem við fáum til andsvara.

Mig langar að byrja á að spyrja hv. þingmann hvort hún muni greiða atkvæði með þessu frumvarpi mínu ef það kemst inn í þingsal, hvort hún muni greiða atkvæði með málinu sjálfstætt og óháð frumvarpi dómsmálaráðherra sem snýst um aðrar breytingar sem eru mun umdeildari og ég hef ekki trú á að fari hér í gegn, þó að ég eigi eftir að sjá frumvarpið og er mjög spennt að sjá það í ljósi þessa umsnúnings í afstöðu ríkisstjórnarflokkanna til þess.

Mig langaði einnig að spyrja hv. þingmann hvort í nýju frumvarpi dómsmálaráðherra, sem ég hef ekki séð en hún hefur séð, sé opnað fyrir atvinnuréttindi fyrir útlendinga frá ríkjum utan EES í ofanálag við þær breytingar sem eru lagðar til til að skerða réttindi flóttafólks.