Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

28. mál
[12:39]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir svarið. Ég hnaut aðeins um orðalagið, að fjölmiðlar væru að búa til sögur. Þær fréttir sem ég var að vísa til í gær byggðust á viðtölum við þingflokksformenn allra stjórnarflokkanna og við dómsmálaráðherrann sjálfan. Ég var eiginlega að vitna í þeirra orð en ekki einhvern tilbúning úr fréttum fjölmiðla sem hefðu þá verið unnar eftir einhverjum heimildum. En ég átta mig svo sem alveg á því að hv. þingmaður getur ekki verið að rekja það nákvæmlega hvað fer fram á þingflokksfundi og ég myndi sjálfsagt örugglega gefa svipað svar. En ég verð nú samt að halda því til haga að þessi atburðarás er auðvitað svolítið áhugaverð fyrir okkur sem höfum verið að fylgjast með þessari deilu á milli ráðherra um það hvernig haga eigi móttöku fólksins og svo brottvísun endi mál fólks þannig. Ég er alveg til í að taka umræðu um allt þetta með hv. þingmanni og öllum öðrum. Það er auðvitað áhugavert að áður en umræðan er farin af stað — og ég ætla að spyrja hv. þingmann hvort hún sé þar af leiðandi ekki eiginlega komin út af borðinu — þá er það þannig að ráðherrar VG hafa nánast slegið þessar hugmyndir út af borðinu.