Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:23]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við lestur þessarar þingsályktunartillögu og greinargerðar og við það að hlýða á ræðu hv. þingmanns hef ég verið að velta fyrir mér að byrja á þessu: Hvaða svæðisbundnu, fjölþjóðlegu samvinnu vísa flutningsmenn til fyrir utan Evrópusambandið? Er eitthvað annað sem þeir eru að vísa til en Evrópusambandið? Af hverju er verið að fara þessa fjallabaksleið að því að segja það sem flutningsmenn eru raunverulega að leggja til? Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að allir flutningsmenn væru hlynntir aðild að Evrópusambandinu. Af hverju er þetta ekki einfaldlega tillaga frá flutningsmönnum um að leggja fram þingsályktunartillögu um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu? Er einhver önnur svæðisbundin, fjölþjóðleg samvinna sem er ekki minnst á og mér yfirsást? Það er væntanlega bara Evrópusambandið.

Það er reyndar þannig að af greinargerðinni að dæma er á ferðinni gríðarleg þekking á alþjóðamálum, mikil innsýn inn í hver þróunin hefur verið í alþjóðamálum og hver hún verður. Þetta eru greinilega miklir sérfræðingar sem hafa komið að gerð þessarar greinargerðar og er það vel. Ég er því líka að velta fyrir mér: Til hvers þarf þá nefnd á vegum utanríkisráðherra að komast að sömu niðurstöðu og komist er að í greinargerðinni? Greinargerðin segir augljóslega að það beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu, í svo mörgum orðum. Það væri fróðlegt að heyra hvað hv. þingmaður segir um þetta.