Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

130. mál
[13:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ræðir hér um eigin hagsmuni Bandaríkjanna. Ég held nú að Evrópusambandið sé ekkert öðruvísi en Bandaríkin hvað það varðar, það hugsar náttúrlega um eigin hagsmuni. Við höfum séð það í okkar samskiptum við Evrópusambandið. Þess vegna þykir mér varhugavert að trúa í blindni á Evrópusambandið eins og hv. þingmaður og flutningsmaður gerir. En varðandi Bandaríkin þá höfum við náttúrlega varnarsamning við Bandaríkin og þau hafa skuldbundið sig til að koma okkur til aðstoðar verði hér ófriður. Nú er sú staða komin upp í Evrópu að við þurfum að fara að huga að þessum málum í ríkara mæli en við höfum gert. Ég hef verið talsmaður þess að við kæmum að okkar eigin varnarbúnaði með einhverjum hætti, þá í samstarfi við NATO og Bandaríkin sérstaklega, og við tækjum þátt í þessu með íslenskum starfsmönnunum og öðru slíku. En það kemur hérna önnur athyglisverð fullyrðing í þessari þingsályktunartillögu og hún hljóðar þannig:

„Því næst kemur Evrópusambandið, sem hefur vaxið hratt og er miklu áhrifameira en áður en glímir líka við innri vanda.“

Flutningsmenn viðurkenna þannig að það sé innri vandi innan Evrópusambandsins og það er gott og vel. En hér er rætt um að það hafi vaxið hratt og sé miklu áhrifameira en áður. Og í hverju felast þessi áhrif? Ef hv. þingmaður gæti aðeins farið nánar yfir það. Felast þau í t.d. orkukreppunni sem Evrópusambandið glímir við núna, sem er gríðarlega erfið og alvarleg kreppa sem við Íslendingar, sem betur fer, þurfum ekki að hafa áhyggjur af heima við hjá okkur þegar kemur að orkunni? Lýsir þetta því að það sé áhrifameira þegar kemur að fjármálamörkuðunum? Er ekki evran búin að vera í hálfgerðu frjálsu falli undanfarið? (Forseti hringir.) Ég er ekki alveg að skilja þessa fullyrðingu. En það væri gott ef hv. þingmaður væri tilbúinn til að skýra það nánar, (Forseti hringir.) í hverju það felst að Evrópusambandið sé miklu áhrifameira en áður.