Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[13:58]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína hér. Við erum að ræða einfalda þingsályktunartillögu um flutning stofnunar frá einu svæði til annars og flutning Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar. Ég veit að þingmönnum, flutningsmönnum sem eru allir sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi, gengur gott eitt til en ég efast um að það sé rétt fyrir sveitarfélagið Reykjanesbæ að fá Útlendingastofnun inn á svæðið. Ég held það séu tæplega 300 einstaklingar í þjónustu hjá sveitarfélaginu. Til viðbótar eru á fimmta hundrað manns á vegum Útlendingastofnunar í Ásbrú án þjónustusamnings við sveitarfélagið. Ég velti fyrir mér — af því Útlendingastofnun gegnir margþættu hlutverki, ekki bara þjónustu við þá sem eru að koma inn í landið heldur líka við fólk af erlendum uppruna sem er hér á landinu — hvort það sé gott að álagið á svæðið verði aukið með flutningi stofnunar af þessu tagi þar inn. Ég óttast að það geti haft verulega neikvæð áhrif á svæðið sem verulega hefur reynt á vegna þess að Útlendingastofnun hefur verið að geyma fólk svo mánuðum skiptir án þjónustusamnings við sveitarfélagið. (Forseti hringir.) Ég vil fá afstöðu þingmannsins gagnvart því hvort hann telji að þetta geti haft þau áhrif að álag á sveitarfélagið aukist.