Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

flutningur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

40. mál
[14:32]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að flestir yfirmenn þeirra stofnana sem ríkið rekur á svæðinu, ef ekki allir, eru búsettir annars staðar heldur en í Reykjanesbæ. Ég vil t.d. bara nefna það að Icelandair, sem er reyndar ekki fyrirtæki í eigu ríkisins, er að reisa sínar höfuðstöðvar í Hafnarfirði en grunnstarfsemin fer auðvitað fram á Keflavíkurflugvelli. Og flestir yfirmenn Isavia búa á höfuðborgarsvæðinu.

Af því að hv. þingmaður minnist á Landhelgisgæsluna, sem búið er að vinna að lengi, í áratugi eins og hann nefndi, og margir komið að og reynt að styðja við það, þá langar mig að nefna að ekki fyrir svo mörgum árum síðan óskaði félagsmálaráðherra eftir því að fá að setja upp öryggisvistun á Njarðvíkursvæðinu. Það fór í ferli, fór í samráð, og niðurstaðan af því er sú að bæjarráð Reykjanesbæjar hefur lýst þeirri skoðun sinni að það telji að það henti ekki Reykjanesbæ að færa slíka starfsemi inn í sveitarfélagið, þessa svokölluðu öryggisvistun. Þar horfði maður á þetta samráð og tók þátt í því.

Við hv. þingmaður vorum báðir kjörnir bæjarfulltrúar í fyrra þegar þessi tillaga um flutning Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar var lögð fram en ég minnist þess ekki að samráð hafi verið haft við okkur um hann á þeim tímapunkti. Þarf ekki áður en tillögur eru lagðar fram að hafa miklu meira samráð?