Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

17. mál
[15:18]
Horfa

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt í þessari vinnu allri saman að við skoðum líka hvernig við tökumst á við börn í jaðarsettri stöðu sem beita einelti og ofbeldi, hvernig við tryggjum réttindi þeirra og velferð því að alþjóðlegar rannsóknir sýna okkur að börn sem tilheyra jaðarhópum eru í hættu á að verða fyrir meiri hörku oft inni í kerfinu. Þetta eru dæmi ég hef séð í mannréttindastörfum mínum. Það er oft meiri atvikaskráning, harðari skorður og þrengri rammi fyrir börn sem tilheyra jaðarhópum vegna þess að það búast alltaf allir við því að þau muni setja allt á hliðina. Það býr oft til mjög spennuþrungið ástand inni í kerfinu þegar allir búast alltaf við að börnin springi. Maður getur sett sig í þau spor, hvernig tilfinningin er þegar allir eru á nálum í kringum þig. Þannig að við þurfum svo sannarlega að hugsa um gerendur í þessu samhengi þótt mér hugnist mjög illa að tala um börn sem gerendur því að þau eru afleiðing af því kerfi sem þau hafa alist upp í.

Mig langar til að hvetja hv. þingmann til að huga sérstaklega að þessu í allri vinnu sinni í framhaldinu og að flutningsmenn þessarar tillögu hugsi til þeirra barna sem munu þurfa að takast á við stór vandamál vegna hegðunar sinna og gjörða hingað til. Þau eru ekki í auðveldri stöðu í dag.