Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

réttlát græn umskipti.

90. mál
[15:54]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Meðflutningsmenn mínir á þessari þingsályktunartillögu um réttlát græn umskipti eru aðrir hv. þingmenn í þingflokki Samfylkingarinnar. Tillagan hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að tryggja réttlát græn umskipti og leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. apríl 2024. Við gerð aðgerðaáætlunarinnar verði kallað eftir samráði við verkalýðsfélög, sveitarfélög og atvinnurekendur. Markmið áætlunarinnar verði að koma í veg fyrir það ójafnrétti sem hlotist getur af loftslagsvá og tryggja að græn umskipti ýti undir aukinn jöfnuð í samfélaginu ásamt því að fjárlög og fjármálaáætlanir endurspegli vilja Íslands til að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum. Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 152. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta þingi, en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju.

Réttlát umskipti í átt að kolefnishlutlausri framtíð eru eitt brýnasta umhverfis-, samfélags- og efnahagsmál samtímans. Með grænum umskiptum þarf að tryggja að aðgerðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum ýti ekki undir aukinn ójöfnuð. Samræma þarf aðgerðir með það að markmiði að tryggja mannsæmandi störf og lífskjör. Þjóðir heims höfðu sameinast um það að árið 2020 ætti að einkennast af loftslagsaðgerðum á alþjóðavísu en málefnið hefur fallið í skuggann af heimsfaraldri kórónuveiru og áhrifum hans. En þó að langþráður árangur sé að nást við að hemja heimsfaraldurinn er hamfarahlýnunin því miður ekki á undanhaldi. Því er nauðsynlegt að setja fram metnaðarfull markmið og áætlanir sem sýna vilja Íslands til að axla ábyrgð í loftslagsmálum og víkja hvergi undan ábyrgð í þessu stærsta viðfangsefni mannkyns. Íslensk stjórnvöld verða að sýna metnaðarfyllri útfærslu á áformum sínum um kolefnishlutleysi árið 2040 til að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins, standa við enn óljós markmið með Noregi og ESB um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og standa við sameiginlega Helsingfors-yfirlýsingu forsætis- og umhverfisráðherra Norðurlanda um að norræn ríki ætli sér að leiða baráttuna gegn loftslagsbreytingum.

Í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, kemur fram hvað þær sviðsmyndir sem stuðla að 1,5°C eða 2°C hlýnun krefjist mikilla fjárfestinga. Sviðsmynd OECD fyrir 2,0°C, þ.e. að hnattræn hlýnun verði um 2,0°, er eina sviðsmyndin sem tekur tillit til fjárfestinga í samgönguinnviðum og öðrum innviðum, auk fjárfesta í orkuvinnslu og orkunýtni. Það er áætlað að árlegar fjárfestingar þurfi að nema því sem samsvarar 6% af landsframleiðslu heimsins, annars vegar 4% vegna samgönguinnviða og annarra innviða og hins vegar 2% vegna orkuvinnslu og orkunýtni. Þar sem endurnýjanleg orkuvinnsla hefur verið tekin upp hér á landi standa eftir fjárfestingar vegna samgönguinnviða og annarra innviða sem þurfa samkvæmt þessu að vera 4% af vergri landsframleiðslu til að mæta alþjóðlegum kröfum. Ljóst er að þessi 4% miðast við 2,0° hlýnun. Ljóst er að miða þarf við hærri prósentu af vergri landsframleiðslu til þess að ná 1,5°C markmiðinu sem Ísland og önnur ríki hafi lýst yfir vilja sínum til að ná. Stjórnvöld bera ábyrgð á þessari fjármögnun ásamt atvinnulífinu og ljóst er að betur má ef duga skal í útgjöldum til málaflokksins. Þar þurfa framlög íslenska ríkisins að duga fyrir metnaðarfyllri markmiðum en núverandi stjórnvöld setja sér. Einnig þarf að draga úr fjárframlögum til aðgerða sem stuðla að aukinni losun og nýta fjárhagslegar ívilnanir og skattkerfið með mun markvissari hætti en nú er gert í þágu loftslagsmála.

Samfylkingin vill sjá mun meiri metnað íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum en þau sýna í fyrirliggjandi fjármálaáætlun. Fjárlög og fjármálaáætlanir þurfa að endurspegla vilja Íslands til að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi og verða að sýna skýrari merki en nú um metnað stjórnvalda í loftslagsmálum. Einnig er ljóst að markaðsöflin munu ekki leysa loftslagsvandann upp á eigin spýtur. Þetta gildir jafnt um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og mótvægisaðgerðir. Til að hægt sé að draga með markvissum hætti úr losun gróðurhúsalofttegunda með grænni uppbyggingu þarf hið opinbera að taka frumkvæði og vísa veginn. Þetta á við um orkuskiptin. Það þarf hærri og markvissari niðurgreiðslu rafmagnsbifreiða, aukna fjárfestingu í almenningssamgöngum, fjárfestingu í hringrásarhagkerfinu og í matvælaframleiðslu, að efla græna stjórnsýslu og innleiða græna fjárfestingaráætlun.

Engin samfélagssátt næst um hröð orkuskipti og aðrar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum nema velferðarsjónarmið séu höfð að leiðarljósi og tryggt að kostnaður falli ekki á herðar tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra. Samkvæmt rannsókn sem unnin var af hópi hagfræðinga fyrir Smith School of Enterprise and the Environment við Oxford-háskóla í maí 2020, sem byggðist á viðtölum við á þriðja hundrað sérfræðinga og stjórnenda í fjármálaráðuneytum og seðlabönkum víða um heim, eru fjárfestingar í grænni nýsköpun og þróun og uppbygging innviða og flutnings- og dreifikerfa fyrir endurnýjanlega orku á meðal þeirra efnahagslegu örvunaraðgerða sem hafa margfeldisáhrif og eru þannig ákjósanlegar á krepputímum. Markmið um sjálfbærni og kolefnishlutleysi falla því vel að markmiðum um aukin lífsgæði og fjölgun starfa. Því er mikilvægt að koma á fót öflugum grænum fjárfestingarsjóði og auka til muna fjárframlög til almenningssamgangna og grænnar nýsköpunar.

Það má nýta fjölda lausna og gagna sem til eru nú þegar til þess að stuðla að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og stemma með því stigu við loftslagsvánni. Líffræðilegur fjölbreytileiki hafsins skiptir okkur hér á landi miklu máli og verði þróunin þar ekki stöðvuð mun hafa hún slæm áhrif á fiskimið okkar og stórkostleg efnahagsleg áhrif um leið. Evrópusambandið hefur sett á laggirnar sérstakt kerfi í því skyni að tryggja að umskipti í átt að loftslagshlutlausu hagkerfi verði réttlát og skilji engan eftir. Er það hluti af græna samfélagssáttmálanum. Kerfið tekur á þeim félagslegu og efnahagslegu áhrifum sem umskiptin hafa í för með sér með markvissum stuðningi og sérstakri áherslu á svæði, atvinnugreinar og launafólk sem mun standa frammi fyrir stærstu áskorunum.

Við jafnaðarmenn viljum tryggja að grænu umskiptin verði sanngjörn og að allir fái að vera með. Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði hafa lagt ríka áherslu á réttlát græn umskipti og norrænt samstarf um þetta réttlætismál. Á endanum verða allir að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en tryggja verður að kostnaður af grænum umskiptum lendi ekki þyngst á þeim sem minnst hafa á milli handanna. Raunar gætu grænu umskiptin leitt af sér sanngjarnari skiptingu gæða en þekkist nú. Komi hins vegar til þess að fólk upplifi vaxandi ójöfnuð eða þurfi að taka á sig óhóflegar byrðar í baráttunni við loftslagsbreytingar mun það veikja stuðning við aðgerðir til langrar framtíðar. Það yrði einnig til þess að árangur næðist ekki í að vinna gegn þeirri ógn sem loftslagsvá af manna völdum er. Ef græn umskipti í átt að kolefnishlutlausu samfélagi eru ekki nægilega vel skipulögð gætu ákveðin svæði, atvinnugreinar eða launafólk sem nú treystir á kolefnisfrekt hagkerfi og aðstöðu þurft að greiða stóran efnahagslegan og félagslegan toll vegna nauðsynlegra aðgerða í þágu umskiptanna. Tæknibyltingin skapar fjölmörg tækifæri til grænna umskipta. Sama gildir þó um hana og græn umskipti því að koma þarf í veg fyrir að tæknibyltingin auki ójöfnuð. Hún þarf þvert á móti að auka jöfnuð. Græn umskipti munu eflaust leiða til breytinga á vinnumarkaði og tegundum starfa. Ný störf koma fram, önnur breytast og enn önnur gætu horfið. Finna þarf leiðir til að koma í veg fyrir atvinnuleysi vegna umskiptanna og að þau sem hafa minnst milli handanna nú verði ekki fyrir slæmum áhrifum af þessari umbyltingu. Bestu lausnirnar fást með samvinnu og því þarf að tryggja að allir séu með í samtalinu um réttlát græn umskipti. Markmiðið er að réttlát græn umskipti styrki velferðarkerfið og ábyrga efnahagsstjórn og að þau stuðli að skipulögðum og heilbrigðum vinnumarkaði. Það þarf pólitíska forystu og sameiginlegt átak verkalýðshreyfingar, sveitarfélaga, atvinnulífs og stjórnvalda til að tryggja réttlát græn umskipti.

Í því átaki þarf að fylgja leiðbeiningum vísindamanna. Stjórnmálamenn geta gert málamiðlanir sín á milli en ekki við loftslagið. Loftslagsmálin eru allt of mikilvæg mál til að vera skiptimynt á milli stjórnmálaflokka. Það þarf miklu skýrari þverpólitíska stefnu um aðalatriðin en nú er. Það gengur ekki að málamiðlanir séu gerðar við ríkisstjórnarborðið og á sáttafundi milli Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins og út komi velþvegnar og -skúraðar yfirlýsingar sem fáir skilja hvernig á að framkvæma eða fjármagna. Við verðum að standa okkur og koma á lágkolefnishagkerfi sem er í raun eina hagkerfið sem er í boði. Við þurfum ekki bara að vera kolefnishlutlaus 2030, eftir átta ár, heldur þurfum við samtímis að standa vörð um lífskjör, vera samkeppnishæf við önnur lönd og halda í unga fólkið okkar. Við þurfum að vera í sókn um leið og við gerum nauðsynlegar breytingar í átt að lágkolefnishagkerfi.

Forseti. Því miður er mikil afneitun enn í samfélaginu og vanmat gagnvart vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Ég kalla eftir skýrari skilaboðum og skilningi hjá stjórnvöldum á því hvað er í húfi því að það er alvara á ferðum. Í Covid-faraldrinum áttuðu sig allir á því að það væri alvara á ferðum, málið væri stórt og alvarlegt og við þyrftum einhvers konar þjóðarátak. Við lögðum traust okkar á vísindamenn og fórum eftir ráðum þeirra. Það sama þarf að gera gagnvart loftslagsvánni.

Frú forseti. Ég legg til að þingsályktunartillagan fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.