Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

umboðsmaður sjúklinga.

210. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni stuðninginn og spurningarnar. Ég viðurkenni að ég veit ekki af hverju þetta mál náði aldrei fram að ganga. Mig grunar að eins og með svo margt annað, svo margar aðrar góðar hugmyndir, þá strandi á fjármagni, að það sé einhver þröskuldur í veginum að fara í það. En mögulega er þetta líka einhver íhaldssemi innan kerfisins sem ég átta mig ekki á. En ein af ástæðunum fyrir því að ég var dálítið spennt fyrir því að leggja fram þetta mál núna var einmitt upp á umræðuna og umsagnirnar. Ég hlakka til að fá að sjá umsagnirnar sem koma um málið því að ég átta mig ekki almennilega á því hvort það er stuðningur t.d. hjá landlæknisembættinu eða innan heilbrigðiskerfisins eða ráðuneytisins við þessa hugmynd. Þetta mál er líka m.a. lagt fram til þess að fá það fram og inn í umræðuna hvort stuðningurinn sé til staðar og ef ekki, hverjar hindranir séu, hverjir þröskuldarnir séu. Af hverju er ekki stuðningur við þetta? Það er eitthvað sem ég hlakka til að fá fram og að geta rætt þetta mál áfram.