Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2022.

greiðslumat.

345. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Sigmar Guðmundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem var fyrst lögð fram í mars síðastliðnum af þingflokki Viðreisnar. Það var Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, varaþingmaður Viðreisnar, sem flutti þá málið og átti frumkvæði að vinnslu þess. Flutningsmenn núna eru hv. þingmenn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson, Guðbrandur Einarsson, Jón Steindór Valdimarsson og sá er hér stendur.

Markmið þessarar tillögu er að gera fólki á leigumarkaði auðveldara að standast greiðslumat við kaup á íbúðarhúsnæði, sérstaklega í tilvikum þar sem kaup þýða að það geti lækkað greiðslubyrði sína í hverjum mánuði. Það ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um það hversu mikilvægt það getur verið fyrir einstaklinga og fjölskyldur.

Tillagan er skýr og skorinorð og hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat til að auðvelda fólki á leigumarkaði að kaupa sér íbúðarhúsnæði til eigin nota. Skulu reglurnar taka mið af því að hafi kaupandi staðið skil á leigu fyrir íbúðarhúsnæði samkvæmt þinglýstum leigusamningi í 12 mánuði eða lengur teljist greiðslugeta hans samsvara sambærilegri fjárhæð á mánuði og hann hefur greitt á tímabilinu. “

Við erum hér að líta til þess að leigumarkaður á Íslandi er að flestu leyti ekki eins þroskaður og á hinum Norðurlöndunum. Þar er það þannig, og þetta hefur margoft komið fram í umræðu um þessi mál hér í þessum þingsal og úti í samfélaginu almennt, að fólk hefur raunverulegt val um það hvort það vilji festa peninginn sinn í eign eða búa við sveigjanleikann sem fylgir leigumarkaði. Hér, svona til samanburðar, er mun stærra hlutfall leiguhúsnæðis í eigu einstaklinga en ekki leigufélaga, leiguverð er hátt og húsnæðisöryggi leigjenda takmarkað. Þetta eru allt saman þættir sem ítrekað hefur verið bent á þegar er verið að bera saman annars vegar eignamarkaðinn og hins vegar svo leigumarkaðinn.

Það er örugglega þannig að það eru margir hlutir sem skýra þessa stöðu. Þetta hefur svolítið verið í þjóðarsálinni, getum við sagt, í gegnum tíðina svona öðrum þræði. Það má t.d. halda langa ræðu um sveiflótt efnahagsumhverfi í gegnum tíðina sem hefur svo ýtt mönnum út í fjárfestingu í eigin húsnæði. Þetta hefur þótt vera örugg leið til að geyma peningana á Íslandi þegar við skoðum aftur í áratugina. Fyrri kynslóðir lögðu ofuráherslu á að byggja sér þak yfir höfuðið og þrýstingur samfélagsins, staða efnahagsmála og viljinn til sjálfstæðis hjá mörgum einstaklingum fyrir fjölskyldurnar sínar í sveiflóttu umhverfi var auðvitað mikill drifkraftur ásamt fjöldamörgu öðru sem of langt mál er að telja upp. Ég ætla því ekkert að fara langt ofan í það.

Staðan núna er sú að það er mun hagstæðara fyrir einstaklinga og fjölskyldur að eiga en leigja. Hjá mörgum er húsið undirstaða eignamyndunar yfir ævina. Því til viðbótar er stuðningur í formi vaxtabóta og skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar hærri en húsnæðisbætur. Fólk er því mun betur sett ef það kemst yfir hindrunina sem útborgun og greiðslumat er. Og sú hindrun sem útborgun getur verið er auðvitað veruleg, þess þá heldur er einmitt mikilvægt að það séu ekki girðingar og einhverjir múrar í greiðslumatinu sem hafa hamlandi áhrif á fólk.

Við nefnum hér, svo að ég vitni í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Síðustu áratugi hafa stjórnvöld rekið séreignarstefnu sem felur í sér beina hvata til fasteignakaupa, m.a. með heimild til skattfrjálsrar úttektar séreignarsparnaðar, með því að fjármagnstekjuskattur er ekki lagður á íbúðarhúsnæði og með leiðréttingunni eftir hrun. Samhliða því getur fólk á fasteignamarkaði verið nokkuð öruggt um eignamyndun sína, sérstaklega til lengri tíma,“ — þótt auðvitað séu sveiflur í því eins og mörgu öðru — „og eykur hana gjarnan um hver mánaðamót. Þannig er hluti afborgunar íbúðalána sparnaður til efri ára. Sami kostnaður leigjenda verður þeim ekki til eignarauka þótt hann sé oft hærri en mánaðarlegar afborganir lána.“

Þarna var ég að vísa beint í greinargerð með málinu og þetta endurspeglast í tölfræðinni. Það eru aðeins um 13% þjóðarinnar sem eru á leigumarkaði og af þeim fjölda, og þetta er mjög áhugavert, eru rétt um 10% sem segjast vilja vera þar. 1,3% þjóðarinnar er og vill vera í leiguhúsnæði. Við höfum t.d. verið að tala mikið um þennan hóp á undanförnum mánuðum í þessu síhækkandi vaxtaumhverfi og þar sem verðbólgan hefur verið á fleygiferð hefur Seðlabankinn sérstaklega tiltekið þennan hóp sem þarf að hafa áhyggjur af, margrætt um sérstakar aðgerðir honum til handa. Leiguverð er orðið mjög hátt og auðvitað sjá margir leigjendur það í hendi sér að það að komast inn á eignamarkaðinn getur lækkað mánaðarlega greiðslubyrði í einhverjum tilfellum og jafnvel mörgum tilfellum. Það er því okkar mat að þessi tillaga sé alveg sérstaklega brýn eins og staða efnahagsmála er núna til þess að hjálpa fólki sem vill ekki vera á leigumarkaði en kemst ekki af honum.

Hitt er síðan annað mál að það má halda langa tölu um það hvernig best væri að reyna að þroska og þróa íslenskan leigumarkað til lengri tíma. Það er nú eiginlega þannig að við erum ekkert að halda því fram að þetta mál lagfæri brotinn leigumarkað en það getur bætt hag fólks sem er fast á leigumarkaði á sama tíma og það greiðir hærri leigu en afborganir væru af sambærilegri eign. Í dag eru reglurnar um greiðslumat þannig að frá tekjum fólks eru dregin neysluviðmið og þau eru birt á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Þau viðmið geta bara endurspeglað meðaltöl en ekki raunverulegan neyslu og þar af leiðandi raunverulega greiðslugetu þess heimilis sem um ræðir.

Í skýrslunni Íslensk neysluviðmið sem gefin var út af velferðarráðuneytinu árið 2011 var gerður sá fyrirvari að þau væru „hvorki endanlegur mælikvarði á hvað telst nægjanleg neysla einstakra heimila né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfæris.“

Það er auðvitað best að greiðslumat endurspegli raunverulega greiðslugetu fólks. Til þess er það nú gert og það er fátt betur til þess fallið en að skoða þau útgjöld sem fólk hefur raunverulega staðið undir til lengri tíma eins og hugmyndin er með þessari tillögu. Það væri síðan auðvitað hægt að fara aðeins í gegnum það að þegar fólk stendur frammi fyrir því að fara í greiðslumat þá er það oft þannig að menn standa í því að færa bókhaldið, færa bíl á milli einstaklinga bara svo að dæmi sé tekið, eða jafnvel fá lánaða peninga til að leggja inn á reikning tímabundið á meðan greiðslumatið stendur yfir og annað í þeim dúr. Kannski væri það jákvæð hliðarverkun af þessari þingsályktunartillögu að greiðslumötin og framkvæmd fólks við að fylla út þau gögn sem þeim fylgir yrði þá kannski raunsærri fyrir vikið.

Rúmlega fjórðungur leigumarkaðar, eða 27%, býr við það sem Hagstofa Íslands kallar íþyngjandi húsnæðiskostnað, sem er þegar heildarkostnaður húsnæðis er yfir 40% af öllum ráðstöfunartekjum heimilisins. Til samanburðar er hlutfall heimila í eigin húsnæði sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað ekki 27% heldur 8,9%. Þetta segir okkur þá að það hallar á leigjendur.

Við tökum hér fram í greinargerð, svo að ég vitni beint í hana:

„Ráðherra er falið að útfæra tillöguna í reglugerð. Rétt er að ráðuneytið taki við þá vinnu afstöðu til þess hvernig beri að gera ráð fyrir auknum kostnaði, m.a. vegna viðhalds fasteigna, í greiðslumati fólks sem teldist standast greiðslumat á grundvelli þessarar undanþágu. Það er þó ekki til þess fallið að takmarka svigrúm þess hóps sem getur lækkað greiðslubyrði sína verulega með kaupum. Eins er rétt að ráðuneytið taki afstöðu til þess hvernig best sé að samræma efni tillögunnar við nýlegar reglur Seðlabanka Íslands, nr. 1077/2021, sem kveða m.a. á um 40% greiðslubyrðarhlutfall að hámarki við fyrstu kaup og heimild lánveitenda til undanþágu sem nemur 5% af fjárhæð lánveitinga á hverjum ársfjórðungi burtséð frá takmörkunum reglnanna.“

Við teljum þetta því mikið réttlætis- og sanngirnismál. Við teljum að þetta eigi brýnt erindi til fólks eins og efnahagsástandið er núna og við tókum svo sem eftir því þegar málið var flutt á síðasta þingvetri að þá voru margir þingmenn úr öðrum flokkum sem voru mjög velviljaðir því að hnika málum til þannig að þetta gæti náð einhverju brautargengi. Við erum þess fullviss að staðan sé auðvitað enn þá þannig og hvetjum þingheim til að kynna sér þetta mál vel og lesa greinargerðina.

Ég ætla að ljúka þessu með því að vitna hér í það sem sagt var um þetta mál í störfum þingsins fyrir nokkrum mánuðum þar sem varaþingmaður Viðreisnar, Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson, sem þá sat hér inni, flutti ræðu. Hann sagði í lokin, og ég geri það að mínum lokaorðum hér, með leyfi forseta:

„Það er í rauninni alveg óskiljanlegt að fólk sem á fyrir útborgun og sýnir það mánuð eftir mánuð að það geti vel staðið undir greiðslum, standist ekki greiðslumat fyrir lægri fjárhæð en það greiðir nú þegar. Að fólki sé meinað að lækka greiðslubyrði sína með kaupum og sé þar af leiðandi haldið föstu á leigumarkaði gegn vilja sínum og gegn hagsmunum sínum.“

Þetta kjarnar auðvitað málið og setur það skýrt fram.