154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

fjármögnun velferðarkerfisins.

[10:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Hvernig gengur? Hagvöxtur á mann frá árinu 2017 er 0%, 8% verðbólga, yfir 9% vextir og 46 milljarða halli á ríkissjóði, velferðarkerfi sem er í vanda, mikilvægar stofnanir eru komnar að fótum fram eins og t.d. Landhelgisgæslan. Þetta er staðan og þetta er veruleikinn sem blasir við fólki um land allt. Á sama tíma sjáum við stjórnmálaflokk sem er stoltur af þessu ástandi. Sjálfstæðisflokkurinn hyllir forvera hæstv. fjármálaráðherra og stærir sig af því að hafa á tíu árum tekið 95 milljarða út úr árlegum tekjustofni hins opinbera. Það er sama upphæð og fer í rekstur Landspítalans á næsta ári eða tvöföld sú upphæð sem þyrfti til að skrúfa fyrir halla ríkissjóðs.

Framsókn leyfði þessu að gerast, Vinstri græn leyfðu þessu að gerast en Sjálfstæðisflokkurinn stærir sig beinlínis af því að veikja velferðina. Þessir þrír flokkar hafa tekið 95 milljarða út úr velferðarkerfinu á hverju einasta ári. Þau hafa tekið rekstur eins Landspítala út úr tekjustofnum hins opinbera. Það er samhengi á milli skatta og velferðar. Velferð verður ekki til úr engu þó að stjórnarflokkarnir hafa reynt að stilla málum þannig upp á undanförnum árum með dvínandi trausti. Og hvernig gengur? Skoðum tímabilið frá 2017: Hagvöxtur á mann 0, í raun niður, verðbólga upp, vextir upp, velferð niður, barnabætur og vaxtabætur niður, húsnæðisverð og leiguverð upp, gjöld á almenning upp og efnahagslegur stöðugleiki er enginn. Stjórnarflokkarnir þrír hafa lækkað skatta mest á þeim sem standa best en á sama tíma hefur allt annað í hagkerfinu hækkað nema það sem við viljum sjá að hækki.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Ætlar ráðherra að gera meira af því sama; taka tugi milljarða út úr velferðarkerfinu okkar, halda áfram að veikja velferðina, mikilvægar stofnanir og fjárfestingu í innviðum þjóðarinnar?