154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

fjármögnun velferðarkerfisins.

[10:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra. Það hefur verið gengið of langt hérna. Ég átta mig alveg á því að það er pólitískur munur hérna í gangi en við sjáum það öll ef við horfum á velferðarkerfin okkar að það hefur verið gengið of nærri þeim. Og þetta er skuld sem er að magnast upp fyrir komandi kynslóðir, kerfi sem eru brotin niður og munu bitna á þessum kynslóðum, vegna þess að á einhverjum tímapunkti gengurðu það langt að það er ekki hægt að gera við kerfin.

Hæstv. fjármálaráðherra ætti e.t.v. að kynna sér álit fjármálaráðs og hvaða skoðun fjármálaráð hefur á því að það hefur verið ófjármagnaður vöxtur í ákveðnum einingum innan ríkisins og að verið er að eyða verðbólgu- og tekjufroðu, umframtekjum sem hafa komið til ríkissjóðs vegna þess að það er búið að lækka ákveðna skatta í landinu. Þetta er ekki bara álit pólitísks flokks eða forystumanneskju heldur álit fjármálaráðs. Það liggur alveg fyrir að það er búið að vera að eyða tekjufroðu hérna og þess vegna er verðbólga í landinu.

Hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) ætti líka að kynna sér hvernig tekjudreifingin í landinu er og átta sig á því að það verða svo sannarlega ekki teknir (Forseti hringir.) 90 milljarðar af tekjulægsta fólkinu í landinu.