154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:47]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu. Hún var mjög áhugaverð og velti upp þeim álitamálum sem maður hefur í þessu og var vel gerð. Það eru nefnilega nokkrar stórar spurningar í þessu sem mér finnst vera svolítið erfitt að nálgast og finna svör við. Hv. þingmaður talaði um sjálfsmynd samfélagsins og ég get algerlega tekið undir að list skiptir miklu máli þar og við berum öll mjög mikla virðingu fyrir listum og mikilvægi þeirra, eins og við gerum líka fyrir íþróttafólki og afreksíþróttafólki sem nær að sameina þjóðina á bak við sig. Margir listamenn hafa haft áhrif á líf mitt þó að ég sé ekki mjög djúpt í listinni og listaheiminum og hef kannski meira verið á öðrum vettvangi. Ég hugsa að það samfélag sem er á svipuðum stað og ég, sem nýt þessara frægu listamanna í gegnum ýmsa viðburði á mínum lífsferli — ég horfi svolítið öðruvísi á það hvaða listamaður er mikilvægur minni sjálfsmynd heldur en hvernig akademían eða fagfólkið lítur á það. Þess vegna finnst mér svolítið erfitt að skilja hvernig hægt er að koma hér upp og segja að það sé hægt að meta hvaða list það er sem hefur haft hvað mest áhrif á sjálfsmynd þjóðar, að fagfólk hafi eitthvert meira vit eða skoðun á því en ég. Mér finnst þetta svolítið eins og að fá fagmenn til þess að segja hvaða stjórnmálaflokkur eigi að fá þá virðingu að vera settur á einhver heiðurslaun fyrir áhrif sín á samfélagið og sjálfsmynd þjóðar út á við.