154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og ég þykist skynja það að þetta mál er ekki sett fram vegna þess að hv. þingmaður sé andvígur list. Það er ekki það sem vakir fyrir honum heldur er hann meira að velta fyrir sér: Af hverju heiðrum við þennan frekar en alla hina og hver er bær til að velja? Þetta eru allt gildar spurningar og það er ekki til einhlítur mælikvarði um það hvað er mikil list og hvað ekki. Þetta er eins og að spyrja: Af hverju er Guernica Picassos meira listaverk heldur en það sem ég var að krota á meðan ég var að hlusta á hv. þingmann tala? En það er samt svo að Guernica er meira listaverk og hefur náð að tjá óheyrilega stóra og mikla hluti í sameiginlegri vitund mannkynsins. Það er líka svo að það hafa verið skrifuð og gerð listaverk hér á landi sem hafa náð að tjá eitthvað sem við eigum öll sameiginlegt og við finnum það þegar við stöndum andspænis þessum listaverkum, hvort sem við lesum þau, horfum á þau eða hlustum á þau. Til að meta þetta mega ekki koma til einhver hreppasjónarmið, flokkspólitísk eða pólitísk sjónarmið, heldur er fólk sem hefur varið ævi sinni í það að stúdera list, njóta listar og vera í kringum list best hæft til þess að meta, þó að það sé alltaf umdeilanlegt.