154. löggjafarþing — 21. fundur,  26. okt. 2023.

brottfall laga um heiðurslaun listamanna.

50. mál
[11:52]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta eru skemmtilega heimspekilegar umræður sem við eigum hér um þetta. Ég held einmitt að það sé mjög erfitt að mæla list út frá hlutlægum mælikvörðum. Meira að segja þeir sem eru búnir að verja ævi sinni í að meta list og annað — hvernig er hægt að segja að þessi hafi gert meira en hinn eða að þessi listgrein sé mikilvægari en hin?

Þótt ég hafi tekið þátt í störfum hv. allsherjar- og menntamálanefndar hef ég aldrei samþykkt viðbót við heiðurslaun listamanna. Kannski einu sinni — ég á eftir að kanna betur hvernig það endaði — þegar það var hálfgerð þjóðstjórn eftir kosningar. Annars hef ég ekki tekið þátt í þeirri afgreiðslu. Þá vorum við með fjöldann allan af mjög virðulegu listafólki á lista. Það komu tilnefningar og fjöldi fólks kunni að meta list þeirra og voru allir verðir þess. Af langri setu minni í allsherjar- og menntamálanefnd hef ég komist að því að pólitíkin innan listageirans er mun meiri en hér við Austurvöll. Hún er mjög mikil; af hverju sviðslistirnar fá minna en bókmenntirnar og af hverju bókmenntirnar fá minna en textahöfundar o.s.frv. Hv. þingmaður þekkir þetta verandi úr listageiranum. Hvað varðar þá sem uppfylltu skilyrðin var mikið rifist um þetta: Það er enginn úr þessari listgrein og þess vegna á hann að fá frekar en hinn. Hinn sem var búinn að uppfylla öll skilyrði og gera mikið fyrir sjálfsmynd þjóðar komst ekki að af því að svo margir aðrir voru búnir að gera það líka, eða að hann var ekki af réttu kyni og fleiri voru af öðru kyninu. Við erum því hvort sem er í vandamálum með þetta.