133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

lækkun virðisaukaskatts á geisladiskum.

[13:32]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að lækka virðisaukaskatt á margvíslegum varningi, þar á meðal á bókum og því höfum við í stjórnarandstöðunni fagnað. Við erum sammála því að lækka eigi virðisaukaskatt á bókum vegna þess að það á að hlúa að hinni íslensku menningararfleifð.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra í gær um afstöðu hans til þess að stíga sama skref varðandi íslenska tónlist. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hann mundi ekki beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að lækkaður yrði virðisaukaskattur á geisladiskum til þess að jafna þann mun sem skapast vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar milli bókarinnar sem vöru og geisladisks. Svör hæstv. ráðherra voru heldur loðin. Mér finnst skipta máli að vita afstöðu beggja stjórnarflokkanna í þessu máli og því hef ég kvatt mér hljóðs til að inna forustu Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, eftir afstöðu Framsóknarflokksins í þessu máli. Vill hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra upplýsa um það hvort Framsóknarflokkurinn er þess fýsandi og hyggst beita sér fyrir því að virðisaukaskattur á tónlist verði lækkaður til jafns við þá lækkun sem á að framkvæma gagnvart bókinni?