133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 43/1999, um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Málið er á þskj. 95.

Lög nr. 43/1999 falla úr gildi um næstu áramót en með frumvarpinu er lagt til að þau verði framlengd um fimm ár. Auk þess eru lagðar til lítils háttar breytingar á ákvæðum um framkvæmd endurgreiðslna sem einkum felast í því að styrkari lagastoð er skotið undir skilyrði fyrir endurgreiðslu.

Samkvæmt gildandi lögum er heimilt að greiða úr ríkissjóði 12% framleiðslukostnaðar sem til fellur við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi samkvæmt nánari skilyrðum laganna og reglugerðar sem sett hefur verið á grundvelli þeirra. Iðnaðarráðherra tekur ákvörðun um hvort veitt skuli vilyrði til endurgreiðslu að fenginni tillögu fjögurra manna nefndar sem fer yfir umsóknir. Fyrsta vilyrðið á grundvelli laganna var veitt hinn 5. apríl 2001 og hafa verið gefin út 58 vilyrði síðan. Þann 15. júní 2001 fór fyrsta endurgreiðslan fram og nú hafa rúmlega 600 millj. kr. verið greiddar vegna 33 verkefna.

Iðnaðarráðherra skipaði á síðastliðnu ári nefnd til þess að undirbúa ákvörðun um hvort framlengja skyldi gildistíma endurgreiðslulaganna. Nefndin var skipuð fulltrúum frá iðnaðar-, fjármála- og menntamálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Nefndin fékk Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að skoða áhrif laganna á íslenskan kvikmyndaiðnað í ljósi þeirra fjárhæða sem ríkisvaldið hefur lagt fram til að styrkja greinina. Að beiðni nefndarinnar var í skýrslu Hagfræðistofnunar reynt að meta efnahagsleg áhrif laganna og áhrif þeirra á ríkissjóð. Í skýrslunni segir að ríkissjóður beri að öllum líkindum ekki byrði vegna endurgreiðslnanna og er þar horft til þess að skatttekjur ríkissjóðs vegna kvikmyndagerðar eru hærri en þeir fjármunir sem ríkið ver til endurgreiðslnanna.

Nefndin leitaði einnig til íslenskra kvikmyndaframleiðenda sem voru á einu máli um mikilvægi þess að gildistími laganna yrði framlengdur. Þá taldi nefndin ekki nægilega reynslu komna á framtíð laganna. Jafnframt bæri að hafa samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum löndum í huga en ýmiss konar ívilnanir til kvikmyndaiðnaðarins hafa aukist mjög á Vesturlöndum undanfarin ár. Lagði nefndin því til að framlengja gildistíma laganna. Frumvarpið byggir á tillögum nefndarinnar.

Ljóst er að gildandi lög hafa átt þátt í að laða að þau erlendu kvikmyndaverkefni sem hingað hafa komið á undanförnum árum. Slík verkefni eru góð landkynning og hafa jákvæð áhrif á innlenda ferðamannaþjónustu. Lýtur það m.a. að því að verkefnin falla oft til utan helsta ferðamannatímans og hins vegar að því að tiltekin landsvæði sem koma fram í kvikmyndum auka áhuga ferðamanna á þeim og á Íslandi í heild. Ekki verður heldur litið fram hjá þeirri reynslu og þekkingu sem verður til innan lands hjá því fagfólki sem að þeim verkefnum vinnur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin verði framlengd um fimm ár. Eðlilegt er að áfram verði gert ráð fyrir að lög um endurgreiðslur vegna framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis séu tímabundin enda æskilegt að kvikmyndaiðnaðurinn verði sjálfbær atvinnugrein líkt og aðrar greinar.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi:

Varðandi 1. gr. er um að ræða breytingar sem grundvallast á þeirri reynslu sem fengist hefur við framkvæmd laganna til þessa. Meðal annars er lögð til nýjung í 5. mgr. ákvæðisins um þriggja ára gildistíma vilyrða. Lögin eru tímabundin í eðli sínu og af þeim sökum þykir rétt að marka þeim verkefnum sem hljóta vilyrði fyrir endurgreiðslu ákveðinn tíma.

Með 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 5. gr. laganna er fjallar um endurgreiðslur. Lagt er til að framleiðendur þurfi að óska eftir útborgun endurgreiðslunnar innan tiltekins tíma og er miðað við sex mánuði frá því að framleiðslu lýkur. Kemur það einkum til af því að um tímabundnar aðgerðir stjórnvalda er að ræða og í ljósi þess er talið óeðlilegt að vilyrði séu útistandandi löngu eftir að framleiðslu er lokið og lögin jafnvel fallin úr gildi. Ákvæðinu er enn fremur ætlað að auðvelda vinnslu fjárlaga.

Þá er í 2. gr. lagt til að ábyrgð löggiltra endurskoðenda verði áréttuð. Við framkvæmd laganna hefur verið miðað við að endurskoðendur staðfesti að kostnaðaruppgjör sé í samræmi við lögin og reglugerð sem sett var á grundvelli þeirra og er með ákvæðinu allur vafi tekin af um þá skyldu.

Frumvarp þetta hefur verið sent Eftirlitsstofnun EFTA til yfirferðar. Útlit er fyrir að stofnunin muni afgreiða málið á næstu vikum og er ekki er búist við athugasemdum við frumvarpið af hennar hálfu, enda ekki um efnisbreytingar á lögunum að ræða. Í ljósi þess að lög nr. 43/1999 falla úr gildi um næstu áramót er frumvarpið lagt fyrir þingið núna enda þótt ákvörðun af hálfu ESA liggi ekki enn fyrir.

Í frumvarpinu er ekki að finna breytingu á endurgreiðsluhlutfallinu 12% en í undirbúningi málsins var haft í huga að samkeppnisstaða og aðrar aðstæður kynnu að hníga að nokkurri hækkun endurgreiðsluhlutfallsins og hefur það verið í athugun í ráðuneytinu. Eftir að ég hef nú fengið frekari upplýsingar um samkeppnisstöðu Íslands á þessu sviði mun ég leggja til við iðnaðarnefnd að skoða hvort æskilegt og mögulegt sé að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 12% í 14%.

Virðulegi forseti. Ég óska þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til iðnaðarnefndar.