137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur og ESB.

[13:35]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Í þeirri þingsályktunartillögu er þess getið að samhliða því máli verði lagt fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Nú liggur það fyrir samkvæmt stjórnskipun Íslands að þingið getur ekki afgreitt mögulegan aðildarsamning að Evrópusambandinu að óbreyttri stjórnarskrá. En því hefur hins vegar ekki verið fylgt eftir með neinum skýringum hvað vakir fyrir ríkisstjórninni að koma fram með frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þar sem augljóst er að í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu gæti aldrei verið tekin endanleg ákvörðun um hvort skrifa ætti undir samning eða ekki virðist sem þarna sé einungis um að ræða einhvers konar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þar sem þetta mál er algerlega óútskýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar og tillagan um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er til meðferðar í þinginu verð ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða þýðingu möguleg þjóðaratkvæðagreiðsla muni hafa, hvaða samhengi er á milli aðildarumsóknar að Evrópusambandinu og þess frumvarps sem boðað hefur verið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Kemur til álita af hálfu hæstv. forsætisráðherra, m.a. í ljósi nýrra skoðanakannana um mikinn áhuga þjóðarinnar á því að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort yfir höfuð eigi að leggja fram umsókn, að hafa slíka þjóðaratkvæðagreiðslu t.d. síðar á þessu ári? Hvert er heildarsamhengið á milli aðildarumsóknar að Evrópusambandinu og væntanlegs frumvarps (Forseti hringir.) um þjóðaratkvæðagreiðslu?