137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

umferðarmál á Kjalarnesi.

[14:00]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður notaði orðin, held ég, „ekki ljóst“ hvað á að gera á Kjalarnesi hvað varðar undirgöng. Jú, það er nefnilega allt ljóst um hvað á að gera þar. Það hefur áður komið fram að ég sem samgönguráðherra og borgarfulltrúar og fulltrúar í samgöngunefnd vorum boðuð á borgarafund þarna upp frá 1. apríl sl. Þar stóð upp úr sem aðalkrafa um fyrstu aðgerðir umræða um umrædd undirgöng.

Ég hlustaði með mjög mikilli athygli á íbúana sem færðu þar fram þau rök sem voru mjög sannfærandi. 2. apríl áttum við vegamálastjóri fund saman þar sem þessu máli var hrint í framkvæmd. 3. apríl var opinn fundur samgöngunefndar þar sem ég var spurður út í þetta atriði og svaraði þá strax að þetta væri komið í þann farveg og væri komið í gang til undirbúnings.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að það er alveg klárt af hálfu Vegagerðarinnar að þetta mál á að vinna en það á að vinna það þannig að það standi til framtíðar. Þess vegna vill Vegagerðin m.a. fá að vita frá borginni hvernig gangstígar til og frá eiga að vera þarna, með öðrum orðum að þetta sé unnið til framtíðar en ekki bráðabirgðaaðgerðir. Þrátt fyrir allt er þetta framkvæmd upp á 60–70 millj. kr. og telst þá auðvitað inni í því kostnaður að búa til nýjan veg fram hjá meðan verið er að gera þessi undirgöng. Það er alveg klárt.

Eftir því sem ég best veit, virðulegi forseti, hefur verið brugðist við því og átti að hefja framkvæmdir við þessa girðingu sem hefur verið talað um. Þó að ég viti ekki nákvæmlega hvað hefur gerst í morgun vona ég að það sé komið í gang.

Virðulegi forseti. Það er alveg klárt að þetta var ferillinn, strax í apríl var þetta sett í gang. Hvenær þau koma, þessi útboð, veit ég ekki nákvæmlega en það er kannski ekki alveg allra besti tíminn (Forseti hringir.) til að gera þetta núna. Það hefði verið betra að vera búinn að því ef þess hefði verið kostur.