137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[14:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur tíðindi að svona mikil samstaða sé að takast um búvörusamningana í landinu. Þetta eru auðvitað tíðindi að því leytinu að Samfylkingin hefur þá horfið frá því að vilja ekki styðja búvörusamninga eins og við vitum að hefur verið reyndin í fortíðinni. Batnandi mönnum er best að lifa.

Aðalatriði málsins er þó að með þessari atkvæðagreiðslu er verið að staðfesta það sem lá fyrir í afgreiðslu þingsins fyrir áramótin, nauðsyn þess að grípa inn í búvörusamningana með því að skerða vísitölubindinguna. Þá var það harðlega gagnrýnt. Við sem að því máli stóðum þá gerðum hins vegar grein fyrir röksemdunum sem að baki eru og að lokum hafa þeir sem andmæltu fyrir áramótin komist að sömu niðurstöðu og við. Í því tilviki á líka við að batnandi mönnum er best að lifa.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að það er bilun í klukkunni þannig að menn verða bara að hlýða hér tímamælingu af forsetastóli.)