137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[19:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því að ráðningarsamningar verði teknir til skoðunar þegar kjararáð fer að vinna sína vinnu og afla sér gagna. Frumvarpið hefur verið undirbúið af færum lögfræðingum á sviði vinnuréttar þannig að ég treysti því að það sé vel úr garði gert sem slíkt en að sjálfsögðu getur hv. þingnefnd sannreynt það og kallað til sín sérfræðinga á þessum sviðum.

Kjararáði hafa alltaf verið sett einhver viðmið í sambandi við störf sín af hálfu löggjafans, alltaf. Til dæmis hafa verið sett viðmið um að taka mið af almennri launaþróun eða öðrum slíkum hlutum. Kjararáð vinnur síðan sjálfstætt í þeim skilningi að það starfar á grundvelli laganna og þeirra viðmiða sem með lögum eru sett og það leysir af hendi þau verkefni sem því eru falin af hálfu löggjafans. Ég tel að þetta frumvarp sé einmitt spor í átt til samræmis og gagnsæis og sé fráhvarf frá því sem myndaðist t.d. með hlutafélagavæðingu opinberra stofnana sem varð skjól fyrir ógagnsæi í launaákvörðunum og ýmis fríðindi sem við vitum að viðgangast, svo sem bílafríðindi og aðra slíka hluti sem eru ígildi kjara. Það er því ekki nokkur minnsti vafi í mínum huga að þetta er til bóta í þessum efnum og til samræmingar og er sanngjarnt. Það er ósanngjarnt að opinberir starfsmenn séu á mjög mismunandi kjörum eftir því hvert rekstrarform þeirrar opinberu einingar er sem þeir starfa hjá. Og það er að mínu mati löngu tímabært að launaákvarðanir opinberra, háttsettra embættismanna eins og yfirmanns Ríkisútvarpsins eða annarra slíkra aðila séu með sambærilegum hætti og forstöðumanna annarra stofnana sem heyra undur kjararáð, ráðuneytisstjóra og fleiri. Ég held að það megi þvert á móti færa sterk rök fyrir því að þetta sé framfaraspor í þessum efnum.