137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:24]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég átta mig ekki alveg á þessum rökum eins og ég sagði. Ég tel eðlilegt að ef verið er að taka upp hvalveiðigjald á annað borð eigi að gera það á þessu ári jafnt sem á öðrum.

Hæstv. ráðherra nefndi tilfinningamál og tilfinningasjónarmið sem blönduðust í þetta. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að hvalveiðar eru í augum mjög margra, sérstaklega Vestur-Evrópubúa og Norður-Ameríkubúa, tákn um rányrkju, um það hvernig maðurinn hefur farið með auðlindir sjávar. Við Íslendingar höfum því miður ekki tekið nægilegan þátt í alþjóðasamstarfi um verndun hvala. Við höfum haft, eins og ég nefndi áðan, fyrirvara við verndunarákvæðið að því er lýtur að sjávarspendýrum m.a. í Bernarsáttmálanum.

Ég nefndi áðan að það væri ýmislegt sem ég gæti gert athugasemdir við, t.d. að í 1. gr. er vísað til þess að hvalastofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar og það er áréttað í skýringum við þessa grein að Íslendingar hafi fullt forræði við nýtingu þessarar auðlindar. Ég vil minna á að stórhvelin eru flökkustofnar sem eru ekki bara eign okkar Íslendinga heldur sameign mannkyns og það verður að horfa til þeirra sem slíkra. Í nótt munu fyrstu tvær langreyðarnar koma á land. Það voru fréttir af því í dag að verið væri að flytja tvær fyrstu langreyðarnar til lands og ég tel að hér hafi í rauninni meiri hagsmunum verið fórnað fyrir minni og ég óttast að áhrif þess að við tökum nú upp (Forseti hringir.) stórhvalaveiðar geti orðið til að skaða orðspor Íslands enn frekar en orðið er (Forseti hringir.) og er vart á bætandi.