137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. sjávarútvegsráðherra til hamingju með daginn. Ég geri ráð fyrir að það sé mjög ánægjulegt fyrir hann að vera í stól sjávarútvegsráðherra nú þegar hvalveiðar á stórhval fara af stað fyrir alvöru á Íslandi eftir 24 ára bið. En eins og kom fram í ræðustól áðan fór Hvalur 9 á miðin klukkan eitt í nótt og það var tignarlegt að sjá skipið sigla út úr höfninni hljóðlaust eins og þau sigla þessi skip. Það er eins og saumavél sé í gangi þegar þessi stóru skip fara af stað en stuttu seinna komu fréttir af því að veiðarnar gengju vel og hann er á leiðinni í land með tvö fyrstu dýrin.

Hvalveiðar verða okkur mjög nauðsynlegar, virðulegi forseti, til að halda jafnvægi í lífríkinu í hafinu kringum landið. Það er enginn ágreiningur um það í alþjóðavísindasamfélaginu að þeir stofnar sem við erum að veiða núna, hrefna, langreyður og sá fjöldi dýra sem við ætlum að veiða er langt innan þeirra marka sem getur flokkast undir ógn við þessa stofna. Þetta eru algerlega sjálfbærar veiðar og í fullkominni sátt. Það á reyndar við um sandreyði líka en það hefur komið fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar að veiðar eins og þær voru stundaðar á þeim stofni áður höfðu engin áhrif á stofninn, en frekari rannsóknir þarf til að gefa þar út veiðileyfi. Það er mjög mikilvægt að hraða rannsóknum á fleiri hvalastofnum, t.d. hnúfubak sem vitað er að hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Talið er að stofninn sé í dag 14–16 þúsund dýr en þegar talningar hófust var hann vel innan við þúsund dýr. Þetta er stofn sem fjölgar sér um 11% á ári samkvæmt upplýsingum frá vísindamönnum. Þarna þurfum við að fara að grípa í taumana til að viðhalda jafnvægi í lífríkinu.

Ég tek undir að það er ástæða til að endurskoða löggjöf sem er orðin 60 ára gömul, ekki síst á þessum tímamótum þegar hvalveiðar eru að fara af stað aftur. Hættan er sú þegar þetta nálgast, eins og manni finnst aðeins bera á í þessu frumvarpi, að við verðum kaþólskari en páfinn. Ég vil nefna það sérstaklega í þessu sambandi að Ísland uppfyllir öll skilyrði sem sett eru á í alþjóðasamfélaginu gagnvart veiðum og viðskiptum með hvalaafurðir. Við höfum lagt okkur fram við að uppfylla þær reglur og það eru fáar þjóðir ef nokkrar sem hafa í raun stundað eins miklar rannsóknir á hvalategundum hér við land og í eins langan tíma og við. Okkar saga í hvalveiðum er í raun þannig að hér var aldrei nauðsynlegt að setja á hvalveiðibann. Hér var ekki um að ræða ofveiði af hálfu þeirra sem stunduðu hvalveiðar og af hálfu íslenskra stjórnvalda sem að hluta til takmörkuðu þær veiðar þegar þeir voru í gangi. Miklu frekar voru menn fyrir löngu búnir að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að ganga af virðingu um þessa stofna og gæta þess að um ofveiði yrði ekki að ræða. Það má því segja að við séum, líkt og gagnvart fiskstofnunum leiðandi á alþjóðavettvangi, að vera sem næst sjálfbærri nýtingu á þessum stofnum.

Alþjóðahvalveiðiráðið er með mjög strangar reglur um margt sem lýtur að hvalveiðum og við erum ekki með fyrirvara gagnvart neinu af því sem er í þeirra sáttmála eða reglum nema því sem lýtur að hvalveiðibanninu en það er eins og menn vita líka mjög óeðlilegt hvernig Alþjóðahvalveiðiráðið hefur höndlað hvalveiðibannið. Við erum með alþjóðastofnun sem árið 1983 tekur þá ákvörðun að setja á hvalveiðibann frá og með árinu 1986 og til að koma skikki á veiðarnar og vera búnir að gefa út sinn kvóta og viðmið árið 1990. Sá kvóti eða viðmið hafa ekki enn litið dagsins ljós vegna þess að mörg þeirra landa sem þarna hafa náð undirtökum í hvalveiðimálum, hafa sjónarmið sem byggja ekki á skynsamlegri nýtingu heldur eru í raun fylgjandi banni á nákvæmlega engum forsendum. Í vinnu nefndarinnar mun ég leggja mikla áherslu á að við séum ekki að setja reglur sem gangi lengra en þær alþjóðareglur sem við þurfum að uppfylla og það bar aðeins á því í reglugerð sem var verið að gefa út í ráðuneytunum að þar væru menn að ganga lengra en kallað er eftir hjá þeim viðskiptalöndum sem við eigum viðskipti við og hjá þeim löndum og samkvæmt þeim reglum sem gilda á alþjóðavettvangi. Það er alger óþarfi hjá okkur að vera að ganga eitthvað lengra en eðlilegt getur talist.

Það er ekki nýtt að til standi að gera úttekt á áhrifum hvalveiða, m.a. á aðrar atvinnugreinar og það er ekkert nýtt að gerðar séu kannanir meðal þjóða um afstöðu þeirra gagnvart sjálfbærum hvalveiðum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér það sem hefur verið gert í þessum málum á undanförnum árum. En það er þannig að allar þær athuganir og rannsóknir sem hafa verið gerðar sýna okkur fram á að það er sáralítil eða engin andstæða við hvalveiðar og allar þessar fréttir um hina miklu andstöðu á alþjóðavettvangi um áhrif á aðrar atvinnugreinar eru ofsögum sagðar og reynslan sýnir okkur það. Hver er reynsla okkar sl. 6 ár, hæstv. ráðherra og virðulegi forseti? Hver er reynsla okkar af því að stunda hvalveiðar og hver er reynsla þeirra þjóða sem fara fremst í hvalveiðum í heiminum eins og Noregs, Japana og fleiri? Þetta er sama reynslan alls staðar, þetta er stormur í vatnsglasi og við verðum að taka mið af því og reyna að standa í lappirnar í þessum efnum þegar kemur að því að ákvarða framtíðina.

Það hefur ekki unnist mikill tími til að skoða endanlega útgáfu þessa frumvarps og því mun maður gefa sér betri tíma í það í meðferð málsins en við fyrstu yfirsýn virðist málið vera mjög opið til frekari útfærslu og ákvörðunar á borð við ráðherra. Það eru þó svona atriði sem stinga í augun og ég vil nefna alveg sérstaklega það sem segir í lokamálsgrein 8. gr., að leyfi til hvalveiða verði gefin út til eins árs í senn. Það er grundvallaratriði, virðulegi forseti, að atvinnuvegir sem eru stundaðir í landinu búi við eitthvert rekstraröryggi gagnvart framtíðinni og það sér hver maður sem það vill skoða að það getur engin atvinnugrein búið við það að hafa leyfi fyrir starfsemi sína eingöngu til eins árs í senn. Það dregur úr allri fjárfestingu og öllum kjarki manna til að leggja í þetta það sem þarf að gera til að atvinnugreinin skili sem mestum arði. Þetta er atriði sem við verðum klárlega að skoða.

Það eru fleiri atriði eins og í 5. og 6. gr. þessa frumvarps sem ég tel að við þurfum að horfa til og það vekur aðeins áhyggjur, sérstaklega ef höfð er í huga afstaða margra þingmanna í þingflokki hæstv. ráðherra Vinstri grænna gagnvart þessu máli, að málið skuli vera svona opið eða eins og segir síðan í athugasemdum með frumvarpinu að það byggist á þeirri meginforsendu að „ef hvalveiðar verði stundaðar hér við land“. Það eru þessir fyrirvarar sem vekja ákveðnar áhyggjur hjá okkur sem viljum sjá þennan atvinnuveg blómstra og færa sem mesta atvinnusköpun og útflutningsverðmæti fyrir þessa þjóð.

Það sama á við um gjaldtökuna. Hæstv. ráðherra setur inn gjaldtöku á veiðar á hval fyrir þau fyrirtæki sem munu stunda þessar veiðar og á það bæði við um hrefnu og langreyði og það er mismunandi hvað er rukkað fyrir þetta. Þetta fer eftir þyngd skepnunnar. Ég velti því fyrir mér á sama tíma og talað er um að ferðaþjónusta og hvalaskoðun geti fært okkur miklar tekjur af hvalastofnum í framtíðinni, hvort ekki sé ástæða til að sama gjaldtaka eigi við um þau fyrirtæki sem stunda hvalaskoðun. Það er verið að nýta hvalastofna með misjöfnum hætti, annars vegar með því að veiða þá og hins vegar með því að sýna ferðamönnum hvalina. Eiga þessar atvinnugreinar ekki að sitja við sama borð þegar kemur að gjaldtöku á nýtingu náttúruauðlindanna? Ég tel að svo vera. Það þarf eftirlit við hvort tveggja. Það þarf heilmikið eftirlit með útgerð ferðamannaskipa og báta sem stunda þetta, bæði gagnvart frístundaveiðum og gagnvart áhöfnum og öðrum öryggisbúnaði sem þarf að vera í þessum skipum og það er eðlilegt að horft sé til þessa þáttar að öllu leyti þannig að atvinnugreinarnar starfi við sambærileg skilyrði.

En mér sýnist fljótt á litið að hæstv. ráðherra ætti að skoða sérstaklega þá gjaldtöku sem hann hyggur á að taka af hvalveiðifyrirtækjum. Mér sýnist í lauslegum útreikningi að hún muni gefa meiri tekjur en heildarskatttekjur af hvalaskoðunarfyrirtækjum í landinu eru nú. Mér sýnist að heildarskatttekjur hvalaskoðunarfyrirtækjanna séu mun lægri upphæð en ætlað er að þau fyrirtæki sem stunda veiðarnar borgi í veiðileyfi og getum við þá haldið áfram að velta fyrir okkur arðseminni af hvoru sem er. Ég er ekki að tala niður til hvalaskoðunar nema síður sé. Ég vil þeirri grein allt hið besta en mér finnst sú gagnrýni sem hefur komið af þeim vettvangi vera mjög ómakleg og ekki átt við rök að styðjast eins og dæmin hafa sýnt og það auðvitað er slæmt þegar svo ómálefnaleg umræða er síðan tekin marktæk í sölum Alþingis.

Það er mjög mikilvægt þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda að það séu þjóðarhagsmunir sem fái að ráða og það er vissulega áhyggjuefni hvernig vinstri stjórnum og þessum vinstri flokkum sem nú eru við stjórn virðist vera það mikið kappsmál að þegar verið er að fjalla um atvinnumál snýr það meira og minna að því að leggja einhverja þröskulda eða stein í götu atvinnugreina og frekari atvinnuuppbyggingar. Það á vissulega við í þessu máli vegna þess að hér hafa verið settir fyrirvarar í hvalveiðimálinu sem eru þess eðlis að sú atvinnustarfsemi fór alls ekki af stað með þeim áformum sem áætluð voru og það eru ákvæði í þessu frumvarpi sem klárlega skapa mikla óvissu og munu draga úr kjarki og vilja manna til að leggja fjármagn og mikla vinnu í þessi mál og til uppbyggingar fyrirtækjanna til lengri tíma litið meðan svo mörg óvissuatriði eru höfð opin í frumvarpi sem þessu.

Þetta sama á við um fiskveiðistjórnarkerfið og þá óvissu sem núverandi ríkisstjórn hefur sett inn í íslenskan sjávarútveg með aðgerðum sínum og ummælum, með fyrningarleiðinni svokölluðu, með þessu strandveiðifrumvarpi sem fór í gegnum þingið í dag. Einnig má tala um það þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda í landinu en eins og ítrekað hefur komið fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra í ræðustól Alþingis eru þessi mál öll meira og minna til skoðunar í einhverjum nefndum. Nefndirnar eiga að skila vinnu sinni í lok þessa árs og á árinu 2010, á sama tíma og Róm brennur.

Virðulegi forseti. Það er tími til kominn til að við förum einbeitt að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem þjóðin mun byggja á. Hún mun byggja á nýtingu náttúruauðlinda landsins og þetta er stór þáttur í því og það er þar sem við munum geta sett þá atvinnusköpun í gang sem mikilvæg er.

Það kom enn einu sinni fram forsjárhyggja hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur þegar hún fór að tala um að hér væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Þetta eru sjónarmið sem við höfum orðið vör við en ég legg á það áherslu að gagnvart framtíðinni náum við samstöðu um að koma á fót atvinnugrein sem mun geta skilað sem mestum verðmætum í þjóðarbúið í framtíðinni, atvinnugrein sem getur unnið í sátt við aðrar atvinnugreinar í landinu.