139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Icesave.

[15:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þær góðu vonir sem ég gerði mér og geri mér enn á þeirri stundu sem líður nú um að lausn málsins kynni að vera í sjónmáli byggðust m.a. á viðtali sem ég er sannfærður um að hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins, hefur líka lesið. Það viðtal var birt þann 15. síðasta mánaðar í Viðskiptablaðinu. Það var viðtal við hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann greindi frá afstöðu sinni. Af því sem þar kom fram getur hver maður sem las það viðtal dregið þá ályktun að það sé hugsanlegt að þessu máli ljúki fyrir árslok.

Að því er varðar aðkomu þjóðarinnar nýtur forseti Íslands þeirra forréttinda að hann getur tekið ákvörðun um að skjóta máli til úrskurðar þjóðarinnar. Það gerði hann 5. janúar sl. Þann dag gaf hv. þingmaður út yfirlýsingu sína. Þess vegna er hún mér svo minnisstæð. Hún gladdi mig.

Ég tel að þetta mál eigi að koma til þingsins og að það eigi að afgreiða það. Forsetinn hefur síðan þennan rétt eins og hann hefur nýtt sér áður. Ég spái ekkert í gang himintungla varðandi niðurstöðu hans.

Samt gleður það mig að hv. þingmaður lýsir því yfir, sem kom mér ekki á óvart, að við erum sammála (Forseti hringir.) um það að við viljum að þetta mál leysist.