139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari afdráttarlausu skoðun hæstv. ráðherra. Við erum algjörlega sammála. Mikilvægi flugvallarins, eins og hann kom að í máli sínu, er ekki síður mikið fyrir höfuðborgina en landsbyggðina. Ef misvitrir stjórnmálamenn ætla einhvern tímann að færa flugvöllinn frá Reykjavík þá er það nú ekki flóknara en svo í mínum huga að þá þarf bara að flytja höfuðborgina. Ef menn vilja flytja flugvöllinn til Keflavíkur eða eitthvert annað þá flytjum við bara alla stjórnsýsluna til Keflavíkur, (ÁÞS: Hólmsheiðina.) hvort sem það er nýi Landspítalinn eða annað. Þetta er nú ekki flóknara en það í mínum huga. Þegar menn grípa fram í og nefna Hólmsheiðina þá hafa allar þær skýrslur og sú vinna sem hefur farið fram sýnt að sú aðstaða er ekki sambærileg.

Því undirstrika ég það og ítreka að höfuðborg Íslands hefur þeim skyldum að gegna gagnvart öllum íbúum landsins að hafa Reykjavíkurflugvöllurinn hér og hvergi annars staðar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tali með svo afdráttarlausum hætti.