140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

virkjanir í Blöndu.

224. mál
[17:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í öðrum áfanga rammaáætlunar, í þeim drögum sem fyrir liggja og við höfum flest séð, er virkjunum er skipað í þrjá flokka; í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Eina virkjunin á Norðurlandi vestra sem kemst í nýtingarflokk samkvæmt þessari flokkun er Blönduvirkjun, Blönduveita sem þar er nánar gerð grein fyrir.

Eins og við vitum fóru fram miklar virkjunarframkvæmdir á sínum tíma í Blöndu. Þær hófust árið 1984 og árið 1991 var fyrsta vélasamstæðan tekin í notkun. Blanda var þá stífluð við Reftjarnarbungu, miðja vegu milli upptaka og árósa, og enn fremur var reist stífla við upptök Kolkukvíslar nokkru vestar. Frá henni er síðan veitt vatni um veituskurð, samtals 25 km leið, af inntakslóni virkjunarinnar. Sú virkjun er samtals 150 megavött og síðan hafa komið fram hugmyndir um að virkja Blöndu frekar, ekki með stíflumannvirkjum í þeim mæli sem áður hafði verið gert heldur með annars konar virkjun. Það er sú virkjun sem er einmitt komin í nýtingarflokk samkvæmt rammaáætluninni eins og hún liggur fyrir. Við vitum auðvitað ekki hver niðurstaðan verður þegar málið kemur í þingið eða hvernig það verður þegar málið verður afgreitt úr þinginu, en miðað við þær upplýsingar sem ég hef undir höndum verður ekki annað séð en að umhverfisáhrif af slíkri virkjun séu hverfandi. Það eru því allar líkur á því að við getum verið bjartsýn á að hefjast megi handa við virkjunarframkvæmdir þarna.

Virkjunin virðist líka vera ákaflega hagkvæm. Þarna er í raun verið að nýta vatnið sem þegar hefur runnið í gegnum núverandi Blönduveitu, segja má að verið sé að nýta það aftur, sem er sama hugmynd og varðandi Þjórsá. Að því sögðu er ljóst mál að hér getur verið um að ræða mjög mikilvægt mál fyrir byggðina á þessu svæði. Hugmyndir manna ganga út á að reyna að finna nýja iðnaðarkosti. Menn hafa skoðað ýmislegt í því sambandi og þó að það sé ekki enn þá komið á koppinn eru menn ekki af baki dottnir, fjarri því. Það er heilmikil orka í Blöndu eins og við vitum, þegar eru framleidd 150 megavött og er nú gert ráð fyrir viðbót af þessu tagi.

Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í hvernig þessi mál standa, hversu stóra virkjun ætlað er að reisa þarna, hvenær búast má við að ákvarðanir liggi fyrir og hvenær framkvæmdir geta hafist.