140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir í Siglufirði.

171. mál
[19:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka enn umræðuna og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í henni. Siglufjörður býr nú vel að eiga dálítinn stokk af þingmönnum sem eru vel að sér um aðstæður og umhverfi á Siglufirði þar sem orðið hefur mikil og blómleg uppbygging.

Ég vil sérstaklega nefna þá ótrúlegu reynslu sem ég sjálf varð fyrir þegar ég áttaði mig á því að ofanflóðavarnir eru ekki bara ofanflóðavarnir heldur geta þær líka verið glæsilega og óvenjulega vel hönnuð mannvirki sem eru þess virði hreinlega að skoða og ganga um eins og tilvikið er fyrir ofan Siglufjörð.

Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði sérstaklega um umfang sjóðsins. Ég hef ekki tölurnar nákvæmlega eins og þær eru núna en fyrir ári lágu um 6 milljarðar í sjóðnum. Það varð líka til þess, ekki síst vegna hvatningar frá virðulegum þm. Birki Jóni Jónssyni, að gefið var í. Við gerðum það í fyrra og settum meira í framkvæmdir til ofanflóðavarna en fyrirhugað hafði verið vegna þess að þarna er um að ræða markaðan tekjustofn sem liggur algerlega fyrir í hvað á að fara og þess vegna er eðlilegt að nýta slíkan stofn til að gefa í þegar um er að ræða bæði öryggissjónarmið, byggðasjónarmið, atvinnusjónarmið o.s.frv. Það er ekkert að því. Ég er tilbúin til að skoða allar tillögur í þeim efnum og meðal annars þá sem kom fram í máli hans.

Ég hef, virðulegur forseti, ekki nægan tíma til að fara út í umræður varðandi sjóvarnir, skíðasvæði eða annað slíkt en hins vegar hef ég í hyggju að leggja fram dálitla breytingu á lögum um ofanflóðasjóð. Hún snýst um að sjóðnum verði kleift að koma líka til móts við kostnað vegna yfirgripsmikils áhættumats vegna eldgosa og annarrar náttúruvár en ofanflóða því að ofanflóðamatinu mun sennilega ljúka á þessu ári eða því næsta.