140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fráveitumál sveitarfélaga.

172. mál
[19:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég átti orðastað við hæstv. umhverfisráðherra í ágúst 2009 um þann stuðning sem ríkisvaldið var með til sveitarfélaga vegna fráveituframkvæmda sem hafði þá runnið út og nam allt að 20% af kostnaði, eða það var heimildarákvæði í lögum til þess. Þeir sem síðast framkvæmdu, þ.e. á árinu 2008 og jafnvel einhverjir 2007, fengu ekki eins góðan stuðning frá ríkinu og aðrir á árunum áður. Ég hafði nokkrar áhyggjur af þessu þá og spurði hæstv. ráðherra hvort hún hygðist bregðast við þessu með einhverjum hætti, framlengja lögin eða fara aðra leið.

Nú eru gerðar miklar kröfur hér og við gerum jafnvel meiri kröfur en sjálft Evrópusambandið — ekki í fyrsta sinn sem við göngum skrefinu lengra, það getur verið margt jákvætt við það — til að vernda umhverfið, ekki síst í þessum málaflokki. Umtalsverður kostnaður fellur á sveitarfélögin í þessu tilviki og íbúa þeirra. Því lengra sem maður kemur inn í landið og viðtakinn við fráveitunni verður minni og viðkvæmari þurfa menn að fara í kostnaðarsamari framkvæmdir. Ég hafði grun um það árið 2009 að mörg af þessum minni sveitarfélögum, sem eru hins vegar með gríðarlega stórt landflæmi og vaxandi þorpa- eða þéttbýlismyndun, ættu eftir að fara í umtalsverðar framkvæmdir í fráveitumálum og yrðu að una við þá undarlegu stöðu að ríkisvaldið hefði dregið sig út úr þeim stuðningi sem nam kannski virðisaukahluta framkvæmdanna, 20%.

Mig langar því að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra, herra forseti, hver staðan sé, hvort öll sveitarfélög í landinu hafi komið fráveitumálum sínum í ásættanlegt horf miðað við þær körfur sem við setjum í lögum og eins hvort ráðherrann hafi frá ágúst 2009 velt því fyrir sér hvort ráðuneytið, ríkisstjórnin, eigi að hafa frumkvæði að því að koma fram með einhvern fjárstuðning við þau sveitarfélög fyrir þau verkefni sem eftir eru. Ég hef grun um að þau séu allnokkur.