140. löggjafarþing — 22. fundur,  14. nóv. 2011.

fráveitumál sveitarfélaga.

172. mál
[19:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Staða fráveitumála hjá sveitarfélögunum endurspeglast fyrst og fremst í gagnasöfnun Umhverfisstofnunar sem safnar stöðuskýrslum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og dregur saman í skýrslu fyrir landið. Síðasta samantekt var gerð í fyrra, árið 2010, og nær til ársins 2008. Umhverfisstofnun vinnur síðan skýrslu sem nær til ársins 2010 á næsta ári.

Staða fráveitumála sveitarfélaga er mjög misjöfn. Af stærri þéttbýliskjörnum er fullnægjandi hreinsun á skolpi frá eftirtöldum stöðum: Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Álftanesi og Hveragerði. Hluti skolps frá Hafnarfirði, Egilsstöðum, Ísafirði, Seltjarnarnesi og Reykjanesbæ er hreinsað með fullnægjandi hætti. Í heildina voru aðeins 30 þéttbýlisstaðir á landinu með yfir 100 íbúum með einhverja hreinsun á skolpi sínu. Langflestir þeirra 55 þéttbýlisstaða sem eru með enga hreinsun losa skolp sitt í strandsjó en aðeins þrír losa í ferskvatn.

Þótt staðan mætti vera betri þegar litið er til fjölda þéttbýlisstaða hafa undanfarinn áratug orðið framfarir í fráveitumálum og nú er skolp frá um 2/3 landsmanna hreinsað með fullnægjandi hætti ef miðað er við íbúafjölda. Það skýrist m.a. af því að stærsti hluti skolps kemur frá höfuðborgarsvæðinu og er hreinsað með viðunandi hætti og víðast hvar sem betur fer til fyrirmyndar. Árið 1994 var til að mynda aðeins um 10% af skolpi og hreinsun þess með fullnægjandi hætti.

Fráveitumál eru viðfangsefni sveitarfélaganna. Þau eru ekki í höndum ríkisvaldsins. Á árinu 1995 þegar lá fyrir að í EES-samningnum væru gerðar tímasettar kröfur um úrbætur í fráveitumálum — og það er rétt sem þingmaðurinn segir að við göngum lengra en sums staðar er gert og allt er það okkur til sóma, ekki síst vegna þess hve háð við erum náttúru- og umhverfisgæðum í atvinnuuppbyggingu okkar — í öllum stærri sveitarfélögum ákvað Alþingi með lögum að styðja tímabundið þau sveitarfélög til tíu ára sem hæfu framkvæmdir til ársloka 2005 með upphæð sem nam þá 200 millj. kr. á ári. Á árinu 2005 var síðan ákveðið að framlengja þennan gildistíma til loka árs 2008 og innan þess tímabils náði að verða algjör bylting í þessum málum á Íslandi þar sem hlutfall íbúa með fullnægjandi skolphreinsun fór úr innan við 10% og vel upp fyrir 60, 65, jafnvel 70%. Þessi lög hafa nú runnið sitt skeið, þ.e. gildistíma framlengingarlaganna lauk árið 2008, og engin áform eru uppi um að hafa frumkvæði að fjárstuðningi við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda. Hins vegar hefur Umhverfisstofnun nálgast Samband íslenskra sveitarfélaga með því að hefja samtal og samráð um það með hvaða hætti þau sveitarfélög sem ekki hafa enn uppfyllt þessi skilyrði með viðunandi hætti hyggist koma til móts við þetta lagaumhverfi og fara að lögum að því er varðar fráveitur.