144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur um framhaldsskólana, þ.e. í þeirri orðræða sem var í gangi milli þingmanna. Við eigum að sjálfsögðu að vera tilbúin til að skoða breytingar og annað slíkt. Þetta er meðal annars til skoðunar (Gripið fram í.) í fjárlaganefnd. Vissulega höfum við fengið athugasemdir frá fjölbrautaskólum á landsbyggðinni, frá sveitarfélögum og öðrum. Þetta er nokkuð sem er til skoðunar og verður til skoðunar alveg fram að jólum þegar fjárlagafrumvarpið verður samþykkt. (Gripið fram í.)

Það sem mig langaði hins vegar að koma hérna inn á er að okkur þingmönnum barst fundarboð frá samtökum sem bera nafnið Hjartað í Vatnsmýrinni. Þau boða til borgarafundar í Reykjavík í kvöld til að ræða þá stöðu að flest bendi til þess að borgaryfirvöld ætli að hunsa með öllu alvarlegar athugasemdir fjölda úr flugrekstri, sjúkraflutningum og flugöryggismálum með því að gefa út framkvæmdaleyfi til verktaka á Hlíðarendasvæðinu. Þetta segir í fundarboði.

Í fundarboðinu eru jafnframt raktar ýmsar staðreyndir um neyðarbrautina sem stendur til að loka á Reykjavíkurflugvelli, m.a. sú staðreynd að á Reykjavíkurflugvöll eru fluttir 468 sjúklingar á ári. Á um það bil 18 klukkustunda fresti eru sjúklingar fluttir í sjúkraflugi á Reykjavíkurflugvöll allt árið um kring. Með því að loka þessari neyðarbraut erum við með ákveðnum hætti að stofna í hættu sjúkraflugi og þjónustu sem er gríðarlega mikilvæg. Það sem er að gerast er að það er jafnt og þétt verið að þrengja að flugvellinum í Vatnsmýrinni með það að markmiði að loka honum. Ég trúi því ekki að Alþingi Íslendinga (Gripið fram í.) ætli að láta þetta gerast. Við höfum séð þingmál í gegnum tíðina hvað þetta snertir og það er kominn tími til þess, gangi þetta eftir, að Alþingi Íslendinga grípi þarna inn í (Forseti hringir.) og tryggi það að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, (Forseti hringir.) að það verði ekki þrengt að honum áfram með þeim hætti sem núverandi borgaryfirvöld (Forseti hringir.) eru að gera.