144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan undir liðnum um störf þingsins verður oft svolítið sérkennileg, sérstaklega þegar kemur að ríkisfjármálum. Ég vonast til þess að fólk kynni sér stöðuna í ríkisfjármálum og meti síðan hversu trúverðugt það er þegar menn lofa peningum út og suður í allt og ekkert. (Gripið fram í: Áttu ekki smá í vélbyssu?)

Vaxtakostnaður er núna 85 milljarðar kr. Það er ekki vaxtakostnaðurinn við lífeyrisskuldbindingarnar. Þetta er tvöfaldur rekstrarkostnaður Landspítalans. Þetta er þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Einungis heilbrigðismálin, sem hefur verið stórbætt í af hálfu þessarar ríkisstjórnar, og tryggingamálin eru stærri málaflokkar. Meðan við tökumst ekki á við það að greiða niður þessar skuldir erum við að taka lán hjá börnunum okkar. Við göngum þannig fram að börnin okkar munu ekki geta notið sömu lífskjara og við. Þeir stjórnmálamenn sem lofa hér endalausum útgjöldum eru að bæta í það. Svo einfalt er það mál.

Forgangsröðunin hefur komið fram hjá þessari ríkisstjórn. Framlög til heilbrigðismála voru hækkuð um 10 þús. millj. kr. (Gripið fram í: Er hægt að fá sundurliðun á því?) Hv. þingmaður kallar eftir sundurliðun. Hv. þingmanni er bent á opinber gögn sem öllum eru aðgengileg. 8 þús. millj. kr. var bætt við lífeyristryggingar. Þetta er forgangsröðun í verki.

Virðulegi forseti. Ég vona að allir kynni sér stöðu ríkisfjármála og meti síðan málflutning hv. þingmanna, m.a. í umræðum um störf þingsins.