144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég er algjörlega sammála því að þetta séu víðtækar aðgerðir. Ég fór yfir það áðan hversu víðtækar þær eru. Það eru tíu veðkröfur í 80 milljarðana áður en kemur að því að lækka höfuðstól lána. Svo víðtækar eru þær að þær ná ekki niður til fjölskyldnanna í landinu. Það er allt annað tekið fyrir. Allt annað er tekið fyrir og hreinsað upp. Það er skafið ofan af því öllu inn í fjármálafyrirtækin. Það eru fyrst og fremst fjármálafyrirtækin sem fá sitt út úr þessu. Það eru þeir sem lánuðu peningana sem fá þessa 80 milljarða kr. að langstærstum hluta.

Hinn parturinn sem fær úr þessum 80 milljörðum kr. eru sá hópur sem úrræði vinstri stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili náði ekki til vegna þess að þau voru sértæk. Þeim var ætlað að leysa úr vanda fólks. Ætlunin með þeim var ekki að leggja fjármuni inn á heimilisreikning þeirra sem áttu ekki við vanda að stríða. Það voru sértækar aðgerðir. Þetta hér eru almennar aðgerðir. Þess vegna ná þær líka til fólks sem hæstv. ríkisstjórn er að fella niður auðlegðarskatta af. Það er sá hópur sem fær hlutfallslega mest í sinn hlut, 34 millj. kr. Það er ekki sá hópur sem er á ellefta veðrétti með 80 milljarðana. Hann fær þetta ekki, það er ekki sá hópur.

Ég ítreka það að ég er ósammála því að hægri stjórnin sé að halda áfram þar sem við skildum við. Það var komið að algjörum krossgötum. Um það snerust kosningaloforðin 2013, hvort halda ætti áfram á þeirri braut eða hvort komið væri að algjörum krossgötum, hvort fara ætti algjörlega öfuga leið og greiða fjármálafyrirtækjum upp og að greiða þeim upp sem þurftu ekki á því að halda, efnamesta fólkinu í landinu. Það var ekki okkar fyrirætlun. Um það var kosið á síðasta kjörtímabili að greiða reikninga fólks, lækka höfuðstól fólks, en það var ekki gert. Þegar upp er staðið (Forseti hringir.) er þetta ein stærsta svikamylla sem um ræðir að mínu mati í þingsögu landsins.