144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:36]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Það kom reyndar ekki fram nein bein spurning ef ég hef skilið hann rétt.

Við erum að tala um aðgengi að áfengi. Vissulega er það umhugsunarefni ef einkaaðilar fara að selja. Ef við horfum á litla staði úti á landi, litlar verslanir þar, er þá grundvöllur fyrir því að vera með þessa vöru? Mun það vera kostur fyrir kaupmanninn að vera með þessa vöru í hillunum þar? Ég er ekkert alveg viss um það. Hvernig verður úrvalið? Verður það ekki fábreytt?

Við erum að tala um unglingadrykkju. Menn eru að tala um að hún hafi minnkað. Það er gott, það er vel, en ég held að hlutur af því sé það að við höfum haft stýrða sölu á þessu og stíft utanumhald. Eftir að fólk fékk aðgengi að vörunni eins og því er háttað núna hefur dregið úr t.d. landasölu og bruggi sem ég man vel eftir hvernig var á böllum, hvernig sú neysla var og sú drykkjumenning.

Ég held að þetta sé í ágætisfarvegi hjá okkur. Ég sé ekki ástæðu til að rugga bátnum.