144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:38]
Horfa

Oddgeir Ágúst Ottesen (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni finnst þetta vera allt í lagi. Í sjálfu sér get ég alveg tekið undir það. Núverandi ástand truflar mig ekkert. Það er ekkert erfitt fyrir mig að kaupa áfengi. Þetta er hins vegar prinsippmál. Ríkið á ekki að vera í atvinnurekstri, á ekki að vera í verslunarrekstri, við eigum að treysta einkaaðilum til þess.

Það hafa ekki komi fram nein rök fyrir því af hverju einkaaðilum er ekki treystandi til að selja þessa vöru frekar en aðra vöru eins og mjólk, byssur eða hvað sem er. Við getum því treyst einkaaðilunum til að selja þessa vöru.

Unglingadrykkja, sem hefur líka komið margoft upp í umræðunni, er í sögulegu lágmarki í Bretlandi þar sem áfengissala er leyfð í matvöruverslunum og það hefur dregið úr henni á Íslandi. Það er því ekkert samasemmerki á milli aukins aðgengis að áfengi og unglingadrykkju. Auðvitað væri það vandamál ef slíkt samhengi væri til staðar en svo er ekki.