145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg umræða sem við eigum hérna núna. Kostnaður og efnahagsleg áhrif á móttöku flóttamanna eru mjög oft dregin inn í umræðuna um þennan málaflokk. Þá er oft slengt fram staðhæfingum um risavaxinn kostnað sem er langt frá hinu sanna. Ég held að tilgangur hv. þm. Róberts Marshalls með þessari fyrirspurn sé að slá á slíka umræðu, jafnvel benda á að mörg vestræn hagkerfi hafa í raun hagnast á móttöku flóttamanna í gegnum tíðina.

Ég er þó þeirrar skoðunar að við þurfum að fara varlega í að nota slík rök í þessu máli. Atgervisflótti frá fátækari löndum heimsins til þeirra efnaðri er ein af birtingarmyndum þess arðráns sem ríkari samfélög stunda á þeim fátækari. Með stríði og flóttamannastraumi margfaldast þessi atgervisflótti. Ég held því að við þurfum að fara varlega í að nálgast þessi mál út frá spurningunni um kostnað eða hagnaðarvon (Forseti hringir.) og einblína meira á mannúðina (Forseti hringir.) og það að hjálpa fólki í neyð.