146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Takk fyrir það. Ég held að við hv. þingmaður deilum einmitt þeirri skoðun að það þurfi að ræða lýðheilsuna í auknum mæli og mikilvægi hennar þegar við ræðum um heilbrigðiskerfið því þarna eru þessi forvarnagildi, þar erum við til lengri tíma að spara fjármuni. Þess vegna var ég mjög glöð þegar ég sá það á vef velferðarráðuneytisins í október sl. að lýðheilsustefna ásamt aðgerðaáætlun hefði verið samþykkt. Mér fannst það mjög gott skref og mikilvægt. Þar er sérstaklega komið inn á mikilvægi þess að vinna með sveitarfélögunum og að öll sveitarfélög hér á landi verði heilsueflandi samfélag. Ég þekki það ágætlega hafandi verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Við vorum fyrsta sveitarfélagið sem gengum inn í það verkefni með landlæknisembættinu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Skólarnir hafa verið að fylgja eftir, bæði leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar, að vera heilsueflandi skólar og svo vinnustaðirnir. Þetta skiptir okkur öll mjög miklu máli.

Ég tek líka undir það að Landspítalinn er okkar lykilheilbrigðisstofnun og mikilvægið þar er mikið. En eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá tek ég líka undir það að fleiri heilbrigðisstofnanir sinna mjög mikilvægu hlutverki. Ég nefndi til að mynda Reykjalund sem er rekið af SÍBS. Svo getum við rætt um starfsemi sem SÁÁ rekur og skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Það er einmitt ekki síst starf sem unnið er kannski svolítið í grasrótinni og frjáls félagasamtök sem hafa skilað mjög góðu starfi þegar kemur að heilbrigðismálum og skiptir okkur öll mjög miklu máli.