146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[18:52]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisandsvar. Ég er virkilega ánægð með þá stefnu sem samtalið er að taka, ánægð með áhersluna á lýðheilsuna, endurhæfingu. Ég vil kannski bæta við sem ég rétt nefndi í ræðu minni áðan, um heilsugæsluna, að það sem við erum kannski sammála um er að undirbyggja kerfið okkar betur en við höfum verið að gera, þ.e. að ná heilsugæslunni sterkari. Ef við náum þessu, ef við náum að byggja undir lýðheilsuna og heilsugæsluna, þá er þeim fjármunum náttúrlega til lengri tíma vel varið í sparnað í heilbrigðiskerfinu. Alltaf þegar við tölum um heilbrigðismál erum við að tala um rosalega mikla peninga. Þetta er það sem við eigum fyrst og fremst að horfa á og, eins og ég fór svo sem ágætlega yfir og tók dæmi bæði frá Suðurlandinu og Suðurnesjum, að nýta heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni betur en við höfum gert. Ég held að við séum öll sammála um það. Þetta er bara spurning um að búa til gott plan, búa stefnuna til og byrja að vinna. Það er sem betur fer þverpólitískur sameiginlegur skilningur, við getum kallað þetta alls konar fínum orðum, en þetta er málið. Við þurfum að koma þessu í farveg. Við erum byrjuð. Þessi þingsályktunartillaga er upphaf að einhverju. Kosningabaráttan gaf líka til kynna að þetta væri sameiginlegur vilji okkar þingmanna þvert á flokka, þangað vildum við fara. Ég er bjartsýn á að við (Forseti hringir.) getum tekið höndum saman og það komi vel mótuð heilbrigðisáætlun út úr þessu okkur öllum til heilla.