149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér er mér nokkur vandi á höndum vegna þess að ég gleymdi blaðinu niðri þar sem ég var búin að gera athugasemdir við hverja einustu tillögu. En ég reyni að rifja þetta upp.

Í stuttu máli finnast mér tillögur starfshópsins og tillögurnar sem eru í skýrslunni margar ágætar til þess að styrkja rammann í kringum krónuna. Ég er ekki mjög gagnrýnin á þær tillögur. Það sem ég gagnrýni er sá þröngi stakkur og þröngi rammi sem þeim var falið að starfa innan og að það hafi verið útgangspunkturinn að nota ætti krónuna. Í því ljósi eru þessar tillögur mjög skiljanlegar. Og margar held ég að geti dugað.