150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

náttúruverndarmál.

[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. umhverfisráðherra innilega til hamingju með kjör til varaformanns hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Það er í mörgu sem ég hef verið ósammála þeim ágæta flokki í gegnum tíðina en margt gott hefur líka komið frá honum, ekki síst á sviði umhverfismála. Ég las það sem hæstv. ráðherra setti eiginlega fram sem „manifestó“ sitt fyrir þingið þar sem hann lagði sérstaka áherslu á náttúruna. Ég fagna því en ég er líka pragmatísk og vil gjarnan fá að heyra hvernig hann ætlar að ná því fram að styðja náttúruna enn frekar.

Styður hann þingsályktunartillögu okkar í Viðreisn, með hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson sem 1. flutningsmann, um betri gæðastýringu vegna landnotkunar?

Styður hann þau okkar sem vilja breyta hvatakerfinu í landbúnaði sem hefur stuðlað að ofbeit og mikilli offramleiðslu með tilheyrandi erfiðleikum fyrir umhverfið? Hyggst hann beita sér fyrir því innan ríkisstjórnar að taka upp búvörusamninginn á þeim forsendum að einblína frekar á styrki til bænda til landnotkunar þannig að það verði til stuðnings bændum, neytendum og ekki síst umhverfinu?

Ríkisstjórnin með Vinstri græn í broddi fylkingar hefur réttilega hreykt sér af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eftir yfirlýsingar landsfundar Vinstri grænna finnst þeim greinilega ekki nóg að gert, þó að þau hafi verið að stæra sig af þessu í tvö ár, og vilja gera betur en kolefnishlutleysi 2040 — sem ég styð. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera til þess að breyta þessu? Mun hann beita sér innan ríkisstjórnarinnar með því að taka aftur upp aðgerðaáætlun hennar í loftslagsmálum? Hyggst hann fá ríkisstjórnarflokkana alla til samstarfs (Forseti hringir.) í þessum efnum eða mun hann reiða sig á okkur, stjórnarandstöðuflokkana, sem leggja áherslu á umhverfismál?