150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[15:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta:

„Um helgina var fundað nær linnulaust um stöðu fjármálakerfisins. Ég get fullyrt að allir þeir sem komu að því borði reyndu sitt ýtrasta til að búa svo um hnútana að starfsemi banka og fjármálastofnana gæti haldið áfram í dag og ávinningur af vinnu helgarinnar gerði það að verkum að í gærkvöldi var útlit fyrir það að bankarnir gætu fleytt sér áfram um sinn.“

Þetta sagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í ávarpi til allra landsmanna mánudaginn 6. október árið 2008, fyrir rétt rúmlega 11 árum, stuttu áður en hann bað guð að blessa Ísland. Um fjórum klukkustundum fyrr þann sama dag átti sér stað símtal milli forsætisráðherra og seðlabankastjóra, símtal sem kostaði íslenska skattgreiðendur á endanum 35 milljarða kr. samkvæmt frétt Kjarnans um málið. Í því símtali kom fram að Landsbankinn færi á hausinn þann dag og Glitnir daginn eftir. Svo fór að Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Landsbankans og Glitnis þann 7. október og Kaupþings aðfaranótt 9. október og lauk þar með um sex ára einkarekstri bankanna á Íslandi.

Ef við ætlum að hafa einhvers konar framtíðarsýn þurfum við að byrja á því að læra af fortíðinni. Hvað höfum við lært af hruninu? Nægilega mikið til að koma okkur á peningaþvættislista. Við höfum lært svo mikið að við vitum ekki einu sinni svarið við því þegar spurt er: Hvernig gengur? Það er búið að taka eitt ár og næstum átta mánuði að skila skýrslu um stöðu verkefna á lista yfir það sem rannsóknarskýrslur Alþingis sögðu okkur að þyrfti að laga. Eitt ár og næstum átta mánuði, og ekki tilbúið enn.

Ég er ekki trúaður maður en það er viðeigandi að segja við þetta tilefni: Guð forði okkur frá því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn selji aftur bankana. Ef ég væri VG myndi ég láta mig hverfa ef það gerist.