150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta hjá hinu opinbera.

98. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að ég verði að lýsa vonbrigðum með það, því að lítið hefur þá breyst í þessum málum frá því að ég spurði síðast út í þau. Mjög miður er að horfa upp á það að hér er vísað í greiningarvinnu sem hófst fyrir þremur árum og er enn ekki lokið. Við erum í kjarasamningalotu á vettvangi hins opinbera þessa dagana og þessar vikurnar. Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram haustið 2017, einmitt til þess að hún gæti nýst inn í komandi kjarasamningalotu sem nú er að ljúka. Rétt er að minna á það að hér hafa verið gerðir kjarasamningar til langs tíma á almennum vinnumarkaði. Væntanlega verða gerðir kjarasamningar á hinum opinbera vinnumarkaði til svipaðrar lengdar, sem segir okkur að ekkert muni í raun og veru gerast í þessum málum, alla vega ekki á vettvangi kjarasamninga, næstu þrjú árin. Það þykir mér ansi mikið meðvitundarleysi hjá ríkisstjórn sem telur sig hafa og segist vera með mikinn metnað í jafnréttismálum.

Ég átta mig alveg á að þetta er margslungið mál og alls ekki auðvelt að ná utan um það. Þess vegna var lögð mikil áhersla á það í þingsályktuninni á sínum tíma að lagst yrði í þessa greiningarvinnu til að við fengjum skýrari mynd af því við hvað er að glíma. Þótt okkur beri almennt saman um að þessi launamunur sé fyrir hendi vitum við ekki nákvæmlega í hverju hann felst eða hvort aðrar skýringar kunni að vera á honum. Þess vegna eru mikil vonbrigði að ekkert hafi gerst varðandi greininguna sjálfa. Við bíðum enn niðurstöðu þar og auðvitað er að sama skapi augljóst og skýrt metnaðarleysi af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum að þessi þingsályktun hefur greinilega ekki verið höfð að neinu leiðarljósi inn í yfirstandandi kjaraviðræður og verður ekki túlkað öðruvísi en að ríkisstjórnin hafi engan áhuga á því að ráðast að ríkjandi launamun. Þetta virðist vera nákvæmlega sama svar og ég fékk á síðasta þingi: Það er ekkert verið að gera.