150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

lyfjamál.

194. mál
[17:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir að ræða lyfjamál hér. Hún hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um lyfjamál í þremur liðum og spyr í fyrsta lagi hversu háu hlutfalli af heilbrigðisútgjöldum hins opinbera hafi verið varið til lyfjakaupa undanfarin ár og hvert þetta hlutfall sé annars staðar á Norðurlöndum.

Svarið sem ég hef við þeirri spurningu er að undanfarin ár hafi um 10–11% af heilbrigðisútgjöldum hins opinbera verið varið til lyfjakaupa hér á landi en séu nýjustu gögn OECD um hlutföll af heilbrigðisútgjöldum sem renna til lyfjakaupa á Norðurlöndum skoðuð, þar er stuðst við upplýsingar frá 2017, kemur í ljós að hlutfall lyfjakaupa af heilbrigðisútgjöldum er næsthæst á Íslandi samanborið við Norðurlöndin, eða tæp 11%, en af Norðurlöndunum er hlutfallið hæst hjá Finnum, eða 12,3%. Hlutfallið er lægst hjá Dönum, eða 6,3%, næstlægst hjá Norðmönnum, 7,3%, og 9,8% í Svíþjóð. Þetta eru tölur sem ég hef frá ráðuneytinu sem hefur aflað þeirra í gegnum skýrslur OECD.

Þingmaðurinn spyr í öðru lagi hvort Ísland sé fullgildur þátttakandi í samnorrænum lyfjaútboðum sem hafa verið boðuð og eru að einhverju leyti komin til framkvæmda og hvernig hafi verið leyst úr vandamálum sem tengjast legu landsins og smæð lyfjamarkaðarins, t.d. varðandi kostnað við aðföng, dreifingu og skráningu. Því er til að svara að fyrsta samnorræna útboðið á lyfjum var auglýst á vormánuðum 2019. Í útboðinu var óskað eftir tilboðum í tiltekin fimm lyf; Meropenem, Ondansetron, Gentamicin, Paracetamol og Anagrelide, en að útboðinu stóðu þá Danmörk, Noregur og Ísland. Vinnunni sem hófst árið 2017 var stýrt af Amgros, lyfjainnkaupastofnun Danmerkur.

Í lok september 2018 var hið sameiginlega útboð kynnt fyrir væntanlegum þátttakendum í útboðinu á fundi í Kaupmannahöfn. Á kynningunni kom fram að þeir sem höfðu hug á að taka þátt teldu Ísland ekki fýsilegan kost af ýmsum ástæðum, svo sem — eins og hv. þingmaður ýjaði reyndar að í fyrirspurn sinni — vegna smæðar hins íslenska markaðar og vegna þess að markaðsleyfi lyfja sem óskað var tilboða í voru ekki öll til staðar á Íslandi. Flutningskostnaður til landsins væri hár og sumir framleiðendur væru þegar samningsbundnir við umboðsaðila á Íslandi sem hamlaði þátttöku þeirra. Því kom fram hjá mögulegum þátttakendum að ef Ísland yrði með í útboðinu yrði boðið hærra verð en ella. Samkomulag var um að Ísland yrði með í útboðinu þrátt fyrir mögulega hærra verð en þátttakendum væri þó ekki skylt að bjóða í Ísland nema fyrir eitt lyf, Anagrelide, lyf sem hefur samevrópskt markaðsleyfi. Tegund markaðsleyfa skiptir miklu máli þegar farið er í útboð á lyfjum með samevrópskt markaðsleyfi því að þá er hindrunin ekki til staðar. Boð fengust í öll lyf fyrir Danmörku og Noreg, eða öll þau sem þar voru undir, en fyrir Ísland barst tilboð í umrætt lyf sem skylt væri að bjóða í. Ef skylt hefði verið að bjóða í öll lyfin, ef sú leið hefði verið farin fyrir Ísland, er áætlað að um 25 millj. kr. sparnaður hefði náðst fyrir þessi fjögur lyf á Landspítala á ársgrundvelli, auk þess sem afhendingaröryggi hefði verið tryggt fyrir þessi tilteknu lyf, enda hefur þessi lyf skort að undanförnu og þá sérstaklega á Norðurlöndunum.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsta samnorræna útboð verður og má geta þess að hugsanlega stendur Ísland þá betur að vígi hvað varðar samningskaup sem notuð eru þegar ekki er samkeppni við önnur lyf, þ.e. bara frumlyf í boði, þar sem ég skrifaði í apríl sl. undir viðauka við samkomulag heilbrigðisráðherra Noregs og Danmerkur, sem hv. þingmaður nefndi, um að hefja sameiginleg samningskaup á ákveðnum lyfjum. Smæð markaðar, flutningskostnaður, fjöldi og gerð markaðsleyfa sem og samningar framleiðenda við umboðsmenn verða þó líklega áfram áskoranir fyrir þátttöku okkar í samnorrænum lyfjainnkaupum. Ég tel að það skipti miklu máli að halda þessari vegferð áfram þó að skrefin séu lítil enn sem komið er.

Hv. þingmaður spyr loks um sameiginleg norræn útboð, hvort þau muni sporna við vaxandi lyfjaskorti á Íslandi og stuðla að lækkun lyfjaverðs. Ég verð að fá að svara þeirri spurningu í lok umræðunnar, en þó má segja að þegar og ef rafrænir (Forseti hringir.) fylgiseðlar verða að veruleika þá fækkar enn aðgangshindrunum fyrir lyf í útboðum hér á landi, þannig að ætla má að þegar sú hindrun verður yfirstigin séum við nær því að ná þarna markmiðum okkar.