151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

70. mál
[16:29]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og óska Controlant til hamingju með sín verðlaun, ég geri ráð fyrir því að nýsköpunarverðlaun hvers árs fyrir sig haldi áfram þrátt fyrir þessar breytingar. Varðandi það hvernig ég sé fyrir mér skipulag nýsköpunarmála og frumkvöðlastarfs, í kjölfar þess að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður um áramót, vil ég fyrst nefna að markmið breytinganna á nýsköpunarumhverfinu er að efla stuðning við nýsköpun í landinu með einföldu verklagi, skýrri ábyrgð og sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila. Sérstök áhersla er á eflingu nýsköpunar á landsvísu, stuðning við nýsköpun á sviði hátækni og rannsóknir og fræðslu í byggingariðnaði. Verkefnum verður forgangsraðað, dregið úr yfirbyggingu og sveigjanleiki aukinn þannig að opinbert fé nýtist sem best. Þetta verður m.a. gert með stofnun svokallaðs tækniseturs í samstarfi við háskólasamfélagið, stofnun verkefnasjóðs um nýsköpun á landsbyggðinni, mótun umgjarðar um stafrænar smiðjur, flutningi fjölmargra verkefna Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, stofnun samkeppnissjóðs byggingarrannsókna, áherslu á faggiltar prófanir á byggingarvörum og áherslu á aukna samþættingu og einföldun í opinberri þjónustu við atvinnulífið.

Varðandi stefnu mína um upplýsinga- og leiðbeiningarþjónustu handa frumkvöðlum og fyrirtækjum í ljósi yfirlýsinga um mikilvægi málaflokksins, sérstaklega að því er snertir landsbyggðina, vil ég taka fram að áfram verður lögð áhersla á upplýsinga- og leiðbeiningarþjónustu við frumkvöðla og fyrirtæki á sviði nýsköpunar. Opinberri þjónustu við frumkvöðla og sprotafyrirtæki verður forgangsraðað og stuðningur efldur þar sem hans er mest þörf. Sérstök áhersla verður á að efla þjónustu og stuðning við frumkvöðla og sprota af landsbyggðinni í gegnum verkefnasjóð með frumkvöðlaþjálfun og með auknum framlögum í stafrænar smiðjur. Einnig er aukin áhersla á stuðning við frumkvöðla og sprota á sviði hátækni, raungreina, verkfræði og skyldra greina. Áframhaldandi áhersla verður á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt í íslensku skólakerfi og stuðning við umsóknir í erlenda sjóði. Þessar aðgerðir eru viðbót við annan stuðning stjórnvalda sem felst m.a. í auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð og Nýsköpunarsjóð námsmanna auk annarra aðgerða sem kynntar eru í fjármálaáætlun. Aðrar aðgerðir fyrir frumkvöðla, svo sem þá sem nú glíma við atvinnuleysi, m.a. vegna afleiðinga Covid-19 faraldursins, eru sömuleiðis til skoðunar.

Hv. þingmaður spyr hvernig tryggt verði að umgjörð nýsköpunar og frumkvöðlastarfs verði jafn traust og í þeim löndum sem Íslendingar bera sig helst saman við eftir áformaðar breytingar. Því er til að svara að nýsköpun í öllum birtingarmyndum er ein af megináherslum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem einnig má sjá í fjármálaáætlun og nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi eru framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækkuð um tæpa 10 milljarða kr. á ári eða um meira en 60%. Samtals er því verið að bæta 40 milljörðum kr. í málaflokkinn á fimm ára tímabili fjármálaáætlunar, samanborið við óbreytt framlög á fjárlögum yfirstandandi árs. Stór hluti rennur til rannsóknar- og þróunarverkefna hjá fyrirtækjum í gegnum endurgreiðslukerfið. Stór hluti rennur til frumkvöðla og sprotafyrirtækja í gegnum samkeppnissjóði og hluti mun renna til Kríu, hvatasjóðs vísifjárfestinga sem mun auka fjármögnunarmöguleika sprotafyrirtækja. Þessar aðgerðir og áherslur í þágu nýsköpunar verða ekki fyrir áhrifum af því að Nýsköpunarmiðstöð Íslands hættir starfsemi í þeirri mynd sem hún er í í dag. Ég tel að með aukinni forgangsröðun og skarpari fókus muni umgjörð nýsköpunar og frumkvöðlastarfs verða betri en áður var.

Varðandi það hvernig þeim fjármunum sem áður runnu til NMÍ verður varið verður um helmingi þeirra veitt í áframhaldandi verkefni í nýsköpun og þjónustu við atvinnulífið. Því sem eftir stendur, rúmlega 300 millj. kr. á ársgrundvelli, verður skilað í ríkissjóð og ég mun ekki finna ný verkefni til að eyða þeim fjármunum.

Þingmaðurinn spyr hvort allir starfsmenn NMÍ muni missa störf sín. Svo er ekki, sem betur fer. Um 70 manns starfa hjá stofnuninni í dag. Helmingur þeirra fær störf í tengslum við þau verkefni sem haldið verður áfram með annars staðar. 13 starfsmenn hafa hætt frá áramótum vegna annarra starfa. 6–8 manns verða hættir hjá stofnuninni um áramót vegna aldurs og fara á biðlaun og um 20 manns munu að óbreyttu fá uppsagnarbréf eða biðlaunasamninga. Þetta er þó með þeim fyrirvara að við erum á lokametrunum að ganga frá þessum þáttum.

Svo spyr þingmaðurinn hvenær von sé á tillögum tveggja ráðuneyta um tilfærslu verkefna sem áður tilheyrðu Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, svo sem umfangsmikilla rannsókna á mygluvanda í íslenskum byggingum. Því er til að svara að ég vona að frumvarpi um opinberan stuðning við nýsköpun verði dreift á morgun. Ég undirritaði plöggin í gær sem fara svo til forseta þannig að ég vona að því verði dreift hér á þinginu á morgun og mögulega í síðasta lagi á föstudag. Þar er því lýst mjög skilmerkilega, bæði í lagatexta og greinargerð, hvernig staðið verður að rannsóknum, prófunum og fræðslu í byggingariðnaði, en þessi áform eru unnin í samráði við félagsmálaráðuneytið. Lögin öðlast að óbreyttu þegar gildi en koma til framkvæmda 1. maí. Það tekur tíma að fara í uppgjör og annað slíkt (Forseti hringir.) en ég vonast til þess að þetta verði nægur tími fyrir þingið til að fjalla um málið. Enda er búið að vinna mjög mikla vinnu sem er skýrt mjög vel í frumvarpinu.