154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

utanríkisstefna stjórnvalda.

[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get bara fyrir fram lýst mig 100% sammála hverju einasta orði sem hv. þingmaður las hér upp úr væntanlegri þingsályktunartillögu. Ég verð nú að velta því fyrir mér af þessu tilefni hver þörfin eða tilgangurinn er, annar en til einhvers heimabrúks í íslenskri pólitík. Ég vona að einhver göfugri tilgangur sé að baki því að leggja nú fram hverja þingsályktunartillöguna á eftir annarri þar sem þingið virðist ætla að vera sundrað. Mér skilst að það séu nokkrar á leiðinni inn í þingið, alltaf með þeim orðum að þær séu lagðar fram til að sameina og senda út skýr skilaboð. Vonandi tekst það fyrir hv. þingmenn, en það sem hv. þingmaður boðar með þessari tillögu er bara nákvæmlega það sem ég hef verið að segja í öllum viðtölum á opinberum vettvangi, á Norðurlöndunum og annars staðar, og íslensk stjórnvöld hafa verið að segja á allsherjarþinginu. Það er bara svo einfalt. Ég fagna því sérstaklega að hv. þingmaður hyggist setja í þingsályktunartillöguna það sem af óskiljanlegum ástæðum sumar þjóðir komu í veg fyrir að yrði hluti af ályktun allsherjarþingsins, vegna þess að það er einmitt rétt mánuður liðinn frá því að gíslarnir voru teknir og þeir eru enn í haldi hryðjuverkamanna.