154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

áhrif launahækkana og hagnaðardrifin verðbólga.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að við erum með of háa verðbólgu. Það sem ég sagði um það að laun hafi hækkað umfram þá verðmætasköpun sem hér er og þá framleiðniaukningu sem hér er, það er einfaldlega staðreynd að svo er. Við höfum hækkað laun á Íslandi meira en löndin í kringum okkur og almennt gagnvart þeim löndum sem við almennt viljum bera okkur saman við og tölum um að vinnumarkaðsmódel þar sé að mörgu leyti betra en hér, þar t.d. byrja menn á að finna út úr því hvað sé til skiptanna og takast svo á um hvernig því er skipt. Kjarasamningar eru auðvitað ekki eingöngu ábyrgð verkalýðshreyfinga, enda eru það samningar milli aðila vinnumarkaðarins. Þannig að ég bendi á hið augljósa, að mér finnst: Byggt á þeim tölum sem við sjáum um launahækkanir undanfarin ár er ekki einn aðili sem þar ber ábyrgð heldur eru þær niðurstaða af kjaraviðræðum.

Ég hef líka sagt að það sé sameiginlegt verkefni að ná tökum á verðbólgunni. Það dugar ekki að einn geri allt hið rétta og hinir spili ekki með. Það þýðir að við þurfum að reyna að koma okkur upp úr þeim skotgröfum að þegar rætt er um af hverju verðbólgan er há þá sé hjólað í einn aðila og sagt að það sé allt honum að kenna. Það hef ég ekki gert. Ég hef ekki sagt að það sé verkalýðshreyfingunni í landinu einni að kenna að hér sé verðbólga of há. Verðbólgan er of há, það er staðreynd. Laun hafa hækkað mikið, það er staðreynd. Hins vegar þurfum við líka að huga að því hér hvernig við afgreiðum fjárlög. Það þarf að huga að öðrum gjaldahækkunum og öðrum fyrirtækjum sem koma sínum kostnaðarhækkunum út í verðlag. Allt hefur áhrif. Af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega matvæli þá til að mynda þegar kemur að innlendri matvælaframleiðslu er 70% kostnaðarins launakostnaður. Þannig að allt hangir þetta jú saman og það sem ég óska er að við getum aðeins oftar talað um þetta út frá þeim grunni.