132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:24]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Hæstv. forseti. Mér heyrist að það þurfi ekki að framkalla nein bros hér, ég bæði heyri það og sé að þau koma af sjálfu sér.

En ólíkt því sem hv. formaður Samfylkingarinnar sagði, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, henni sagðist vera alveg sama hvort okkur liði vel eða illa. Okkur er ekki sama um hennar líðan. Við viljum að henni líði vel og viljum að hún hafi það sem best, að hún hafi sem minnstar áhyggjur af okkur og sem minnstar áhyggjur af lífinu. Ég vil bara ítreka að það er engin ástæða fyrir hv. þingmann að hafa neinar áhyggjur af okkur. Okkur líður ágætlega og þó að henni sé sama hvernig okkur líður er okkur alls ekki sama um líðan hv. þingmanns.

Ríkisstjórnin leggur á það megináherslu að ljúka að sjálfsögðu fjárlögunum og ég heyri ekki betur en það sé full samstaða um það. Það er eitt mál sem varðar samkomulagið frá því í gær og það eru starfsmannaleigur sem þarf að ljúka fyrir jólahlé og ég vænti þess að það sé fullt samkomulag um það. Það er líka mikil áhersla lögð á það að klára öll mál sem varða fjárlögin og svo eru nokkur mál sem eru ekki mjög mörg og ég vænti þess að það geti náðst góð samstaða um þau. Ég vænti þess að hér verði allt á fullu í vinnu þessa síðustu tíu daga og af því að hér er svo mikið af duglegum þingmönnum þá held ég að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því.