135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er mikilvægt mál á ferðinni sem nauðsynlegt er að vanda mjög til verka á til þess að menn nái því sem að er stefnt, að nota þessar rannsóknir mannkyninu til heilla. Ég hygg að það sé enginn ágreiningur um að opna leiðir til þess að menn geti fetað sig áfram á þessum vandmeðfarna vegi.

Mig langar að leggja tvær spurningar fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra. Sú fyrri er hvers vegna ekki var tekið tillit til athugasemda vísindasiðanefndar sem fram komu við frumvarpið á liðnum vetri, sérstaklega við 5. gr. frumvarpsins eins og hún var þá og mér sýnist vera algerlega óbreytt, en vísindasiðanefnd gerði athugasemdir við þá grein og sagði m.a., með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið samþykkt óbreytt með jafnrúmu orðalagi 5. gr. og raun ber vitni er líklegt að nefndin eigi ekki annan kost en að samþykkja flestallar umsóknir sem til hennar berast enda sé nægilega sýnt fram á að stofnlínurnar nýtist til að afla þekkingar eða bæta heilsu eða lækna sjúkdóma.“

Nefndin gerði athugasemdir við greinina vegna þess að hún væri of rúm.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort eitthvað í frumvarpinu sem hann er hér að flytja komi í veg fyrir að rannsóknaraðilar geti boðið fjárhæðir til þess að fá keypta fósturvísa, hvort það verði þá eins og mér sýnist vera miðað við núgildandi lög og þetta frumvarp, að frjáls viðskipti með þá geti farið fram.