136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:43]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að meginefni frumvarpsins sé til bóta og ætti að tryggja að fiskur sé frekar seldur hér innan lands, alla vega að aðgengi sé opnað að fiski sem fyrirhugað er að fari úr landi á uppboðsmarkaði. En ég lýsi áhyggjum mínum út af undanþáguákvæðinu í 2. mgr. eins og hv. þm. Grétar Mar Jónsson fór yfir. Þar er auðvitað veitt sérstök undanþága, eins og sjá má í athugsemd við 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt er í ákvæðinu fjallað um undanþágur frá þessari meginreglu og þau skilyrði sem uppfylla þarf til að heimilt sé að landa og vigta afla erlendis.“

Ég held að allir hljóti í núverandi ástandi að reyna að tryggja sem mesta atvinnu í landinu, eigi mun nú af veita, og í ljósi þess ræða menn þetta mál. Það nýmæli er tekið upp að Fiskistofu ber að senda upplýsingar um afla til birtingar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðar með sjávarafla og útgerðarmenn skulu gefa upp lágmarksverð fyrir afla og auðveldar það kaupendum að bjóða í hann, eins og hér er sagt. Hugmyndin er sú að reyna að veita fiskkaupendum betri aðgang að afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi svo þeir hafi möguleika á að bjóða í hann og viti hvaða lágmarksverð seljandinn setur. Breytingarnar snúa að því að reyna að auðvelda aðgengi fiskkaupenda að afla og reyndar er einnig talað um kostnað vegna eftirlits með vigtun og skráningu afla erlendis.

Hæstv. forseti. Ekki er djúpstæður ágreiningur um efni málsins en fyrst og fremst efasemdir um heimildir ráðherra til að leyfa með reglugerð að afla sé landað í erlendum höfnum og hann fluttur úr landi án þess að vera hér veginn og seldur á opinberum fiskmarkaði. Auðvitað er alltaf vandfarið með reglugerðarheimildir og framkvæmd á þeim og þess vegna hefur umræðan snúist að nokkru leyti um þetta ákvæði. Almennt er leitast við að reyna að tryggja fiskkaupendum þann forgang að þeir geti boðið í afla áður en hann fer úr landi og sú hugsun held ég að sé til bóta og gæti orðið til þess að afli væri unninn hér á landi.

Eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna, geta markaðsaðstæður fyrir ákveðnar fisktegundir verið betri á erlendum mörkuðum, þó að um heilan fisk sé að ræða, t.d. smá ýsa, sem nefnd var í umræðunni og hefur fengist gott verð fyrir á Bretlandsmarkaði, og einnig karfi og ufsi á Þýskalandsmarkaði, sem oft og tíðum hefur gefið það hátt verð að vafasamt væri að slík verðmæti næðust við ákveðnar aðstæður hér innan lands. En auðvitað er það ekki algilt vegna þess að markaðir í Þýskalandi fyrir karfa og ufsa eru breytilegir, ekki bara á milli mánaða heldur árstíða og einnig hvernig stendur á rótgrónum hefðum þar um neyslu á fiski.

Markmið okkar allra er, vænti ég, að reyna að ná sem mestum verðmætum fyrir aflann úr sjónum og ég held að hv. þingmenn sem hér hafa talað hafi allir sameiginlegt markmið um það. Sérstaklega við núverandi aðstæður til að reyna að tryggja aðgengi fiskvinnslu sem ekki hefur aðgang að útgerð, sem oft var kallað fiskvinnsla án útgerðar. Þessar fiskvinnslur hafa á undanförnum árum oft fundið markaði og rutt brautir til að ná frekari verðmætum, annað en stærri og öflugri útgerðarfyrirtæki sem oft hafa tryggt sér föst viðskipti en ekki leitað að markaðsholum þar sem e.t.v. væri hægt að fá miklu hærra verð.

Oft hefur maður heyrt þá athugasemd frá minni fiskvinnslum, sem kaupa allan afla sinn á fiskmarkaði og greiða því miklu hærra verð en fyrir afla í föstum viðskiptum, að þær finni markaði og byggi upp sölutengsl o.s.frv. og fái að njóta þess í nokkurn tíma. Síðan komi stærri fyrirtæki sem eru bæði með veiðar og vinnslu og bjóði fiskkaupandanum að kaupa sams konar vöru eða svipaða á lægra verði en sá fékk sem markaðinn vann eða fann þá holu sem varð til þess að hægt var að selja jafnvel dýrasta fisk keyptan hér á Íslandi með góðum hagnaði.

Ég held að fiskvinnslurnar sem starfað hafa hér á landi undanfarin ár og haft takmarkaðan aðgang að aflaheimildum frá eigin skipum en keypt mest af sínum afla á fiskmarkaði, hafi oft aukið verðmæti sjávarfangs verulega miðað við það sem ella hefði verið. Ég tel það því af hinu góða að reyna að auka aðgengi slíkra fiskvinnsla að afla og tel að við sækjumst bæði eftir sem mestum verðmætisauka úr íslenskum sjávarútvegi og einnig því að auka atvinnu í landinu og eigi mun af veita eins og nú árar á Íslandi.

Ég vænti þess að málið verði rætt í viðkomandi nefnd og þar farið yfir vafaatriðin sem hér hafa verið nefnd og skoðað ofan í kjölinn hvað megi betur fara eða menn sannfærðir um að ekki þurfi að hafa sérstakar áhyggjur af ákvæðinu. En undanþáguákvæðið er þarna inni og það er algjörlega rétt ábending hjá hv. þm. Grétari Mar Jónssyni að það þarf að taka til sérstakrar athugunar.