137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ein af þeim mörgu sem saknaði þess og sá eftir því þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður af þáverandi ríkisstjórn. Mikil umræða var um það mál á sínum tíma, að það væri ekki skynsamleg leið að leggja Þjóðhagsstofnun niður.

Ég held að reynslan sýni að það hafi verið rétt mat. Það er mjög mikilvægt að stjórnarandstaðan ekki síst hafi aðgang að stofnun eins og Þjóðhagsstofnun og með því að styrkja Hagstofuna, eins og hv. þingmaður nefndi, er verið að styrkja sjálfstæða rannsóknareiningu á sviði efnahagsmála og hagrannsókna. Ég er alveg sannfærð um að það mun nýtast mjög vel fyrir þingið í heild þannig að hluta til er hægt að svara því að menn hafi aðeins verið að horfa til þessa þáttar þegar þessi breyting var gerð á Hagstofunni.

Ég sé að það er komið rautt ljós á mig þannig að ég vil svara því síðar og þá í næstu umferð.